Á annan hátt er unnið að hvalreka nú á dögum en áður fyrr. Þá var hnífum og sveðjum beitt á hvalinn og hann skorinn niður í hæfilega hluta svo hægt væri að flytja hann heim á hestum eða gangandi. Þá var allt nýtt nema ef til vill beinin. Og þó ... dæmi eru um að þau hafi verið notuð til húsbygginga.
Nú eru aðrir tímar. Steypireiðin á Skaga er unnin á annan máta. Í stað hnífa af öllum stærðum er brúkuð skurðgrafa af stórri gerð og vinnur hún hratt og vel á hræinu. Ekkert er lengur nýtt nema beinin því ætlunin er að hafa beinagrindina til sýnis fyrir fróðleiksfúsa námsmenn og aðra þá sem áhuga hafa. Og grafan mætti þess vegna kallast „hvalskurðgrafa“.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær. Ekki eru þeir öfundsverðir sem vinna við hvalinn. Þvílík ýldulykt var af honum að hún fannst upp í flugvélina ... og trúi því hver sem vill.