Guðjón Guðjónsson verður spyrill, dómari og alvaldur í umdeildustu spurningakeppni Skagastrandar, Drekktu betur, sem haldin verður í Kántrýbæ á föstudagskvöldið kl. 21:30.
Hann er ekki bara þekktur sem sjómaður heldur er hann málafylgjumaður mikill og hefur rifið stólpakjaft við spyrla í Drekktu betur og því er kominn tími til að reyna á þolrifin í kallinum í brúnni.
Guðjón segist koma vel undirbúinn til leiks. Hann harðneitar því að hafa flokkað spurningarnar eftir einhverjum þemum. Ætlar bara að spyrja um hitt og þetta; „...en ekkert þó um pólitík“, segir hann.„Allt annað fréttatengt, daglega lífið, landafræði, staðsetningar, bókmenntir og margt margt fleira.“
„Jú, ég verð gef kost á þremur eða fjórum möguleikum við nokkrar spurningar,“ segir Guðjón. „Svo ætla ég að vera með eina spurningu sem varðar Skagaströnd og ég veit að svarið verður afar umdeilt. Það er svona eins og að spyrja hvort rétt sé að sameina sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu.“