Guðný Finns­dótt­ir 100 ára

Afmælisbarnið Gýja Finnsdóttir
Afmælisbarnið Gýja Finnsdóttir

Guðný Finns­dótt­ir varð 100 ára þann 3. apríl 2022. Hún býr á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Sæ­borg á Skaga­strönd og er þriðja kon­an þar sem nær þess­um aldri á und­an­förn­um sex árum.

Guðný, eða Gýja eins og hún er alltaf kölluð, fædd­ist í Skrapa­tungu í Laxár­dal í Aust­ur-Húna­vatns­sýslu 3. apríl 1922. Þar var hún svo skírð Guðný Sig­ríður 1. júlí 1922.

Í Skrapa­tungu ólst hún upp í torf­bæ, eins og þá var títt, hjá for­eldr­um sín­um, þrem­ur systkin­um og einni eldri fóst­ur­syst­ur. Gýja út­skrifaðist úr Kvenna­skól­an­um á Blönduósi 4. maí 1945 en þá þótti nám í kvenna­skóla tölu­vert mik­il mennt­un.

Hún gift­ist Kristni Ágúst Jó­hanns­syni skip­stjóra, hafn­ar­stjóra og síðast starfs­manni Rarik í júlí 1948 og bjuggu þau all­an sinn bú­skap á Skaga­strönd. Sam­an eignuðust þau svo fjög­ur börn á ár­un­um 1948 – 1954. Krist­inn lést í nóv­em­ber 2002 og eft­ir það bjó Gýja ein á heim­ili þeirra að Hóla­braut 7. Eft­ir að börn­in voru kom­in á legg starfaði hún í Rækju­vinnsl­unni og á sauma­stof­unni Vi­olu. Síðustu árin hef­ur hún búið á Sæ­borg.

Frétta­rit­ari hitti Gýju í vik­unni í íbúð sinni, uppá­klædda og fína eins og hún er alltaf.

- Er eitt­hvað sér­stakt sem þú þakk­ar að ná að verða 100 ára?

„Nei, ég hef aldrei spáð í það. Ald­ur­inn læðist aft­an að manni án þess að maður sé eitt­hvað að spek­úl­era í því. Svo er maður bara allt í einu orðinn 100 ára hvort sem manni lík­ar bet­ur eða verr.“

- Þú reykt­ir aldrei eins og var þó al­gengt hjá fólki hér áður fyrr?

„Nei, ekki get ég sagt það. Stöku sinn­um fékk maður sér síga­rettu á þorra­blót­um því það þótti svo fínt að hafa þetta milli fingr­anna. Mig langaði aldrei í þetta sem bet­ur fer. Gerði það meira svona upp á punt.“

- Hvernig var að al­ast upp í torf­bæ? Var ekki þröngt um ykk­ur?

„Það var ágætt. Það voru rúm meðfram veggj­un­um beggja meg­in og borðið var und­ir glugg­an­um á stafn­in­um. Við krakk­arn­ir sváf­um and­fæt­is í rúm­un­um. En svo var líka sofið í fremsta hús­inu.“

- Var ekki búið á mörg­um bæj­um í daln­um þegar þú varst þarna?

„Jú jú, Það voru marg­ir bæir og mik­ill sam­gang­ur og hjálp á milli bæja. Við vor­um t.d. mikið sam­an syst­urn­ar þrjár og Björg á Bala­sk­arði. Hún var fimm árum yngri en bráðþroska og stór.“

- Hvernig var með böll þegar þú varst ung. Hvar voru þau hald­in?

„Ég man að ég fór á ball á Neðri-Mýr­um og líka niðri á Sölvabakka, heima hjá Jóni frænda mín­um. Pabbi og hann voru bræður. Það var bara dansað í stof­unni.“

Með byss­ur en ósköp prúðir

- Hvað tók við hjá þér þegar þú fórst svo að heim­an?

„Ég fór í Kvenna­skól­ann á Blönduósi í eitt ár. En áður var ég í vist eða vinnu­kona í Reykja­vík hjá Jó­hanni Ólafs­syni. Hann var rík­ur. Þar passaði ég börn og vann önn­ur heim­il­is­störf eins og tími vannst til frá börn­un­um. Svo nátt­úru­lega tók ég sam­an við Kidda minn og þá varð ég hús­móðir á eig­in heim­ili. Ég man að ég átti sauma­vél, svona hand­snúna, og saumaði kjól og kjól fyr­ir mig og aðra. Ég saumaði líka dragt­ir og dragt­ar­jakka. Við syst­urn­ar sáum jakka, skoðuðum hann í krók og kring til að sjá hvernig þeir væru gerðir, hvar maður þyrfti að byrja og hvernig. Þetta varð svo allt miklu auðveld­ara þegar tísku­blöðin fóru að koma. Þeim fylgdu snið sem maður gat farið eft­ir.“

- Ég hef heyrt að þú haf­ir verið sér­lega góð prjóna­kona og prjónað peys­ur sem báru af öðrum?

„Ég veit nú ekk­ert um það en ég prjónaði tölu­vert. Til dæm­is peys­ur á barna­börn­in mín. Hvort þær voru betri eða verri en aðrar veit ég ekki.“

- Manstu eitt­hvað eft­ir stríðsár­un­um ?

„Já, já. Það var fjöldi af her­mönn­um á Blönduósi, al­veg heilt hverfi af brögg­um með her­mönn­um. Ég man að þris­var sinn­um kom hóp­ur af þeim, sjö held ég, labb­andi heim að Tungu. Pabbi tók þeim vel og bauð þeim inn og það var hitað kaffi í stóra svarta katl­in­um. Það þurfti mikið kaffi. Ég man að þeir óðu yfir ána en fóru ekki úr sokk­un­um eins og aðrir gerðu. Einn var reynd­ar í vaðstíg­vél­um. Þeir voru með byss­ur grey­in en ósköp prúðir. Ég heyrði aldrei neitt um stelp­ustand á her­mönn­un­um sem voru hérna. Þeim hlýt­ur að hafa leiðst að hanga hérna yfir ekki neinu. Eitt­hvað voru þeir líka að labba hérna í Mána­skál­ar­fjall­inu hátt uppi. Sjálfsagt eitt­hvað að æfa sig.“

Höf: Fréttaritari Morgunblaðsins á Skagaströnd, Ólafur Bernódusson

Nán­ar er fjallað um málið í Morg­un­blaðinu 2. apríl og á mbl.is 

 

Ljósmyndasafn Skagastrandar