Mikil flugumferð var yfir Skaga um helgina. Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli var hluta flugumferðarinnar frá Evrópu til Ameríku vísað norður fyrir Ísland. Ekki fór hjá því að Skagstrendingar kæmu auga á þessa auknu umferð.
Flugvélarnar virtust fljúga hátt yfir Skagafirði og snarbeygja þá til vesturs. Þetta er nokkuð óvenjuleg leið og ekki víst að flugmenn hafi almennt þekkt hana. Sagt er að þannig hafi þeim verið vísað til vegar:
„Sko, fljúgðu bara yfir Ísland, miðaðu á Skagafjörð og þegar þú er fyrir ofan vitann á Hrauni á Skaga skaltu samstundis beygja til vesturs. Ekki fara lengra þá lendirðu í vandræðum yfir Grænlandi. Þú veist, þar er allt hvítt, en grænt á Íslandi ...“
Og allt gekk þetta skínandi vel. Undantekningin er þó að einstaka golfari á golfvellinum á Skagaströnd þóttist ekki geta spilað háu boltunum eins og vant var vegna „þessara andsk... flugvéla“.
Nú er flugið sem betur fer komið í samt lag. Golfararnir á Skagaströnd hafa á ný tekið gleði sína og slá að vild, alls óhræddir um að trufla háloftaflugið.
Meðfylgjandi mynd var tekin frá golfvellinum er er af Boeing þotu British Airlines sem er nýkomin úr Hraunáskaga beygjunni. Gaman að sjá hversu vel liggur á flugmönnunum ... og farþegarnir liggja flestir brosmildir í gluggunum.