Háskóli unga fólksins á Skagaströnd

Háskóli unga fólksins, HUF, hefur verið starfræktur á vegum Háskóla Íslands frá árinu 2004 og notið mikilla vinsælda. Í tilefni aldarafmælis HÍ 2011 verður starfsemi HUF með hátíðarsniði og skólinn á faraldsfæti. Þar ber hæst ferð Háskóla unga fólksins með svokallaðri Háskólalest sem heimsækir níu áfangastaði á landinu í samstarfi við Rannsóknarsetur HÍ á landsbyggðinni, grunnskóla, sveitarfélög o.fl.

Frá og með 29. apríl  til 28. ágúst 2011 verða valin námskeið HUF, ætluð börnum frá 12 – 16 ára, haldin víðs vegar um landið undir formerkjum Háskólalestarinnar. Til viðbótar við námskeið fyrir unga fólkið verður fjölþætt dagskrá fyrir alla aldurshópa á hverjum áfangastað, viðburðir, uppákomur, örfyrirlestrar og margt fleira.  

Háskólalestin verður á Skagaströnd á tímabilinu 23. – 27. maí í vor. Þetta er þó ekki endanleg dagsetning.

Háskólalestin er skipulögð í nánu samstarfi við Vísindavef Háskóla Íslands en á vefnum verður sérstakur „brautarpallur“ lestarinnar. Á Vísindavefnum verður m.a. fróðleikur um hvern áfangastað lestarinnar, tekinn saman með virkri þátttöku grunnskólanemenda og Rannsóknasetra HÍ. Nemendur vinna jafnt spurningar og svör á vefinn ásamt öðru efni, svo sem myndböndum og hlaðvarpi. 

Undirbúningur Háskólalestarinnar stendur nú sem hæst og viðbrögð og undirtektir hafa verið einstaklega jákvæð. Við þökkum fyrir velviljann og hlökkum til samstarfsins.


Nánari upplýsingar veitir Guðrún Bachmann, kynningarstjóri Háskóla Íslands, gudrunba@hi.is,  525 4234, 864 0124