Heimsókn frá Hönefoss

Hönefoss í Ringerike, vinabær Skagastrandar í Noregi, hefur verið hér nokkuð í fréttum undanfarið vegna gagnkvæmra heimsókna nemenda grunnskólanna á þessum stöðum í maí og byrjun júní.

 

Síðastliðið þriðjudagskvöld komu nokkrir meðlimir Norræna félagsins í Hönefoss í heimsókn til Norræna félagsins á Skagaströnd, alls tuttugu og einn að tölu. Veður og veðurspá höfðu verið nokkuð válynd að undanförnu og ollu nokkrum áhyggjum heimamanna sem fannst ekki spennandi að sýna gestunum bæinn og nágrenni í roki og rigningu og 3ja stiga hita.

 

Meðhjálpari bæjarins og mikill áhugamaður um norrænt samstarf, Steindór Haraldsson að nafni, sá að við svo búið mátti ekki standa og ræddi nokkra stund við yfirboðara sinn á efri hæðum. Gengu þær viðræður vel og í sama mund og rútan með gestina renndi í bæinn hætti rigningin og létti til. Var veður síðan hið besta meðan gestirnir dvöldu hér á Skagaströnd.

 

Norrænu gestirnir dvöldu í heimahúsum meðan á dvölinni stóð nutu gestrisni heimamanna.

 

Á miðvikudeginum hófst dagskráin með skoðunarferð um bæinn en síðan var haldið í “Rækjuvinnsluna” þar sem þeir fengu kynningu á saltfiskvinnslunni. Eftir það var haldið út í Kálfshamarsvík þar sem Rafn Sigurbjörnsson oddviti Skagabyggðar tók á móti gestunum og fræddi þá um staðhætti. Að því loknu var haldið í Skagabúð og snæddur dýrindis hádegisverður í boði heimamanna, á borðum var nýveiddur silungur, reyktur silungur og reyktur rauðmagi ásamt meðlæti, m.a. flatbrauði, soðbrauði og rúgbrauði með fjallagrösum.

 

Eftir hádegisverðinn var ekið til baka til Skagastrandar og komið við á netaverkstæði Toppnets. Þar fræddi Ólafur Bernódusson gestina um hákarlaveiðar og sýndi þeim ýmis tæki til veiðanna en síðan var boðið upp á harðfisk, hákarl og brennivín. Flestum Norðmönnunum þótti harðfiskurinn ágætur, hákarlinn fékk heldur lakari viðtökur en ekki var fúlsað við Svartadauðanum.

 

Að loknu öllu þessu var haldið í guðshús bæjarins, Hólaneskirkju. Þar fræddi Steindór meðhjálpari hópinn um sögu kirkjunnar og kirkjukórinn söng nokkur lög. Síðan var haldið í Gamla skólann, saga hússins sögð og drukkið kaffi.

 

Kvöldverður var síðan í Kántrýbæ með gestum og gestgjöfum og öðrum félögum Norræna félagsins, þar sem Steindór kokkur og aðstoðafólk hans bauð upp á fiskiréttasúpu, lambalæri og skyr í eftirrétt. Undir borðum var sungið allnokkuð, sýndur kántrýdans og fluttar tölur. Síðan hélt hver til síns heima, saddur og sæll.

 

Norrænu gestirnir kvöddu svo Skagaströnd á fimmtudagsmorguninn og þökkuðu mikið fyrir sig. Var þá ferðinni heitið til Snorra Sturlusonar í Reykholti og síðan til Reykjavíkur.

Norræna félagið á Skagaströnd vill þakka öllum þeim sem aðstoðuðu við þessar móttökur sem tókust hið besta í alla staði.