28.10.2004
Síðastliðinn þriðjudag og miðvikudag dvöldu hér góðir
gestir frá Ringerike. Þetta voru aðstoðarskólastjóri Hov
Ungdomsskole í Hönefoss (Ringerike), mæður tveggja
nemenda í 10. bekk og tveir myndatökumenn.
Tilgangur heimsóknarinnar var að undirbúa
nemendasamskipti Hov Ungdomsskole og Höfðaskóla
næsta vor og kynnast aðstæðum hér á landi en einnig
eru Norðmennirnir að vinna að gerð myndbands um
allan undirbúning og framkvæmd
nemendasamskiptanna.
Nemendur 9. og 10. bekkjar Höfðaskóla hafa
undanfarið ár verið í samskiptum við nemendur 10.
bekkjar í Hov Ungdomsskole í Hönefoss, vinabæ
Skagastrandar í Noregi. Ástæða samskiptanna er
væntanleg utanlandsferð þessara nemenda Höfðaskóla
til Hönefoss í maí á næsta ári og heimsókn 10. bekkjar
frá Hönefoss í byrjun júní sama ár.
Þrátt fyrir að kennaraverkfall hindraði eðlilegt skólastarf
þá hittu Norðmennirnir nemendur 9. og 10. bekkjar utan
skólans, kynntust félagslífi og áhugamálum þeirra
ásamt því að skoða atvinnulífið í staðnum. Þá gistu þeir
á heimilum foreldra nemenda í 9. og 10. bekk.