09.12.2003
Á aðventustund í Hólaneskirkju, þann 7. desember sl.,
var kirkjunni formlega færð Guðbrandsbiblía að gjöf.
Gefandi er Aðalheiður Þorleifsdóttir, búsett á Akureyri,
móðir Péturs Eggertssonar forstöðumanns
Dvalarheimilisins Sæborgar á Skagaströnd. Biblían er
ljósprentað eintak nr. 312 af þeim 500 eintökum sem
ljósprentuð voru veturinn 1956-57. Hún er ljósprentuð
eftir frumútgáfu sem Guðbrandur Þorláksson (f. á
Staðarbakka í Miðfirði 1542; d. 1627) Hólabiskup gaf
Knappstaðakirkju í Fljótum skömmu eftir að hann hafði
látið prenta, árið 1584, 500 eintök af hinni svokölluðu
Guðbrandsbiblíu, þ.e. fyrstu útgáfu Biblíunnar á
íslenskri tungu. Sú Biblía er kennd við Guðbrand
sökum þess að hann stóð fyrir því í orði og verki að láta
prenta hana er hann sat á biskupsstóli á Hólum árin
1571-1627. Hann þýddi m.a. sjálfur stóran hluta af
Gamla testamentinu en notaði þýðingu Odds
Gottskálkssonar á Nýja testamentinu, auk þess sem
hann keypti prentsmiðju frá Breiðabólstað í Vesturhópi
og flutti heim að Hólum í Hjaltadal til þess að geta
fullkomnað verkið.
Af framsögðu þarf ekki að undra að
fræðimenn séu flestir á þeirri skoðun að útgáfa
Guðbrandsbiblíu sé eitthvert mesta stórvirki íslenskrar
menningarsögu og eru Skagstrendingar afar þakklátir
og ánægðir að hafa fengið til varðveislu ljósprentað
eintak af þessu mikla menningarlega verðmæti.
M.M.