Hugleiðingar um atvinnumál á Skagaströnd

Halldór G. Ólafsson
Halldór G. Ólafsson
 Á síðastliðnum 10 árum hefur samfélag á Skagaströnd gengið í gengum mjög miklar formbreytingar á atvinnulífi, kannski ætti tala um hamfarir.  Hér voru starfandi tvær litlar fiskvinnslur og ein öflugasta rækjuvinnsla á landinu. Gera má ráð fyrir að þessi starfsemi hafi beint og óbeint veitt í það minnsta 70-100 manns atvinnu. Fyrir tíu árum má jafnframt með góðu segja að hér verið starfandi tveir opinberir starfsmenn þ.e. prestur og hjúkrunarfræðingur.  Hvernig er staðan í dag? Öll landsvinnsla á sjávarafurðum hefur lagst af í kjölfar samþjöppunar í sjávarútvegi en um 5-7 manns keyra til vinnu í fiskvinnslu á Sauðárkróki. Með mikilli baráttu hefur hins vegar tekist að fjölga opinberum störfum á Skagaströnd. Nægir þar að nefna Greiðslustofu Vinnumálastofnunar og BioPol ehf. Væntanlega eru nú á Skagaströnd um 30 opinberir starfsmenn sem telst vera töluvert hátt hlutfall miðað við stærð bæjarfélags.

Slíkar umbreytingar eiga sér ekki stað án þess að jafnframt verði breytingar á íbúasamsetningu og því miður hefur landsbyggðin verið látin borga að fullu fyrir hagræðingu og samþjöppun í sjávarútvegi. Neikvæð íbúaþróun er þess vegna alls ekki aðeins bundin við Skagaströnd heldur hefur átt sér stað víðast á landsbyggðinni.

Við skulum heldur ekki gleyma að tilkoma þessara stafa frá hinu opinbera hefur átt sér stað yfir tímabil þar sem íslenska ríkið hefur gengið í gegnum efnahagshrun og þurft að standa fyrir blóðugum niðurskurði á flestum vígstöðvum. Sveitarstjórnarmenn hafa því haust eftir haust þurft að eyða ómældum tíma í að standa vörð um þessi störf við gerð fjárlaga. Fólk sér sjaldnast mikið af þessari vinnu. Það var til dæmis brugðist hart við þegar eftirfarandi frétt birtist á www.visir.is 16. desember 2013:

Blóðugur niðurskurður er framundan hjá Vinnumálastofnun á næsta ári. Svo gæti farið að starfsemi stofnunarinnar á Skagaströnd verði lögð niður sem yrði reiðarslag fyrir sveitarfélagið að sögn sveitarstjóra. Þeir sem minna mega sín eru niðurlægðir og á þeim níðst segir formaður stéttarfélags í almannaþjónustu.

Rúmlega 20 manns starfa hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd. Verði af niðurskurði munu um 5% íbúa Skagastrandar missa vinnuna. Það samsvarar ef 6.000 manns í Reykjavík myndu missa vinnuna.

Hvernig endaði þessi slagur? Heldur fólk að það sé ekki mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að búa yfir reynslu þegar tekist er á um slíka hluti? Haldið þið að geti skipt máli að vera með þokkalegar tengingar við stjórnmálamenn og jafnvel fólk við ríkisstjórnarborðið þegar svona átök fara fram? Hverjum treystið þið til þess að tala ykkar máli þegar kemur að slíku?

Skagastrandarlistinn hefur ekki trú á töfralausnum í atvinnumálum enda væri þá búið að framkvæma þær lausnir fyrir löngu. Við höfum trú á fólkinu sem hér býr og finnst best ef frumkvæðið kemur frá ykkur íbúunum. Okkar stefnumið eru einföld og skýr:

  • Nýstofnaður Atvinnuþróunarsjóður Skagastrandar verði hvatning til nýsköpunar

  • Halda áfram baráttu fyrir opinberum störfum á Skagaströnd

  • Hvetja/styðja einstaklinga og fyrirtæki sem eru á staðnum

  • Markviss  uppbygging ferðaþjónustu, m.a. aukning gistirýmis

  • Samstarf við nágrannasveitarfélög og stjórnvöld um uppbyggingu atvinnu á svæðinu

  • Kynningarátak á kostum Skagastrandar fyrir fjölskyldur og fyrirtæki

Fólki á Skagastrandarlistanum er jafnframt ljóst að um Skagastrandarhöfn hefur á undanförnum árum farið umtalsvert magn af ferskum fiski sem ætti að vera hægt að nota sem grunn ef áhugasamir aðilar vildu hefja á ný vinnslu á sjávarafurðum á Skagaströnd. Skagastrandarlistinn munum áfram reyna að beita sér í þeim efnum.

Veitið Skagastrandarlistanum umboð í komandi kosningum til að hrinda góðum atvinnumálum í framkvæmd í samstarfi við ykkur. Þá vegnar okkur vel.

Halldór Gunnar Ólafsson