Um klukkustund eftir að björgunarskipið Húnabjörg á Skagaströnd var kallað út kom það til hafnar með snurvoðarbátinn Stefán Rögnvaldsson EA845.
Báturinn var á veiðum rétt um tvær sjómílur fyrir vestan Skagastrandarhöfn. útkallið kom um klukkan 10:45 og viðbrögð björgunarsveitarmanna voru sem fyrr eldsnögg. Aðeins ellefu mínútum síðar var lagt af stað frá bryggju.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var blankalogn á Húnaflóa, eins og svo oft áður á undanförnum vikum. Stefán Rögnvaldsson hafði fengið snurvoðina í skrúfuna. Þriggja manna áhöfnin beið sallaróleg eftir aðstoð enda engin hætta á ferðum.