Húnavatnshreppur varðar leið til enn betra skólastarfs

 

Við skólaslit Húnavallaskóla mánudaginn 26. maí  kynnti  Þóra Sverrisdóttir, oddviti  nýja skólastefnu Húnavatnshrepps.

Haustið 2013 hefst markviss vinna við gerð stefnunnar og voru þau Guðjón E. Ólafsson, fræðslustjóri  og Sigríður B. Aadnegard, skólastjóri fengin til að stýra verkinu.

Allir íbúar sveitarfélagsins áttu kost á að segja sitt og láta til sín taka.

Skólastefnan er vegvísir skólastarfs Húnavatnshrepps og vísar til þeirra áherslna sem Húnavatnshreppur vill að séu vörður skólastarfs sveitarfélagsins. Skólastefnan skal taka mið af þeim gildum sem allir aðilar skólasamfélagsins vilja að einkenni skólastarfið sem og þeim áherslum sem lög og aðalnámskrár segja fyrir um. Stefnan markar framtíðarsýn Húnavatnshrepps í skólamálum og á erindi til alls samfélagsins.

Með gerð skólastefnunnar er fyrst og fremst verið að gera sýnilegar þær áherslur og vinnulag sem aðilar skólasamfélags alls vilja að sé ríkjandi í starfi skólanna í sveitarfélaginu. Með skólastefnunni er einnig verið að uppfylla lagaleg skyldu sveitarfélagsins.

Í skólastefnunni  er sérstök áhersla lögð á að skólinn sé hjarta byggðarlagsins og því mikilvægt að góð samskipti og gagnkvæm virðing ríki á milli skólans og samfélagsins í heild.

Áherslur skólastarfs Húnavallaskóla endurspegla skólastefnu sveitarfélagsins, lög, reglugerðir og námskrár.

Kveðja

Guðjón E. Ólafsson, fræðslustjóri

Sigríður B. Aadnegard, Skólastjóri