Hvers vegna bauð ég mig fram?

Árný Sesselja Gísladóttir
Árný Sesselja Gísladóttir

Þegar hugmynd um að bjóða mig fram undir merkjum Skagastrandarlistans kom upp  í kollinn á mér hugsaði ég málið í nokkra daga og ákvað í framhaldinu að henda mér út í djúpu laugina. Ég sé alls ekki eftir því. 


Frá því að ég var lítil hef ég litið á Skagaströnd sem mitt „heim“.  Hér hef ég starfað síðan 2008 og búið síðan í byrjun árs 2012.  Eftir flutninginn hugsaði ég, af hverju var ég ekki löngu flutt hingað?  Hér slær hjartað, hérna er mitt „heim“ og á Skagaströnd vil ég búa þar til ég er orðin gömul og grá.  Til þess að það sé mögulegt þarf að tryggja atvinnuöryggi.  Óöryggi í atvinnumálum er ekki aðlaðandi fyrir neinn og allra síst ungt fólk með börn.  Við þurftum að leita leiða til styrkingar atvinnulífs hvort sem um er að ræða nýsköpun eða stuðning við núverandi atvinnurekendur.               


Mennta- og uppeldismál eru mér ofarlega í huga.  Gæði þeirra eru alger forsenda fyrir því að samfélag eins og okkar dafni og sé aðlaðandi fyrir barnafjölskyldur. Við þurfum að tryggja að skóli og leikskóli  veiti bestu menntun sem völ er á. Jafnframt þarf aðbúnaður skólastarfs að vera til fyrirmyndar. Halda þarf áfram því góða starfi sem unnið hefur verið á sl. árum en jafnframt er mikilvægt að stöðugt sé unnið að endurbótum á starfinu og umhverfi þess. 


Ég bauð mig fram til að geta lagt mitt lóð á vogarskálar samfélagsins.  Ég vil gera enn betur og  halda áfram að gera bæinn okkar betri.  Ég er sannfærð um að gott má alltaf bæta.


H-listinn Skagastrandarlistinn leitar nú eftir umboði til að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum. Veitið okkur umboð til uppbyggingar og traust til að hlúa betur að samfélginu okkar á komandi kjörtímabili.  Stöndum saman í að gera samfélagið okkar enn betra.                                                                                        


Sjáumst sem flest hress og kát á kjörstað


 


X-H Árný Sesselja Gísladóttir