Íbúafundur miðvikudaginn 18. mars um aðalskipulag

Boðað er til almenns íbúafundar í Fellsborg 18. mars n.k. kl. 17  um tillögur að aðalskipulagi og Staðardagskrá 21 . Kynnt verða drög að landnotkun fyrir sveitarfélagið í heild, þéttbýli á Skagaströnd og matslýsing aðalskipulagsins. Ennfremur verða kynntar tillögur að málaflokkum Staðardagskrár og verkefnum innan þeirra (sjá nánar um hvað Staðardagskrá 21 er hér fyrir neðan).

Ráðgjafar frá Landmótun og Staðardagskrá 21 gera grein fyrir tillögum og taka á móti athugasemdum.

Aðal tilgangur fundarins verður að leita eftir ábendingum og athugasemdum, gefa íbúum og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum sem snerta aðalskipulagið.

Jafnframt er leitað eftir hugmyndum íbúa um verkefni sem falla undir Staðardagskrá 21 og stuðla að sjálfbærri þrjún samfélagsins.

Íbúar eru hvattir til að mæta og hafa þannig áhrif á samfélagið og þróun þess.

Fundurinn verður haldinn í Félagsheimilinu Fellsborg miðvikudaginn 18. mars kl. 17:00.  

Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri


Nánar um Staðardagskrá 21

Staðardagskrá 21 (Local Agenda 21) er áætlun sem öllum sveitarstjórnum heimsins er ætlað að gera í samræmi við ályktun Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiró 1992.  Nánar tiltekið er hér um að ræða áætlun um þau verk sem vinna þarf í hverju samfélagi um sig til að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun á 21. öldinni, þ.e.a.s. þróun sem tryggir komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði.

Staðardagskrá 21 er með öðrum orðum heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina.  Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál í venjulegum skilningi, heldur er henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta. Í raun og veru er Staðardagskrá 21 fyrst og fremst velferðaráætlun.

Staðardagskrá 21 er ekki einkamál sveitarstjórna.  Samkvæmt samþykkt Ríóráðstefnunnar ber að vinna verkið í samráði við íbúana á hverjum stað og með þátttöku atvinnulífs og félagasamtaka.  Staðardagskrá 21 er nefnilega áætlun alls samfélagsins.

Vinnu við gerð Staðardagskrár 21 lýkur aldrei, þó að stórum áfanga sé náð þegar 1. útgáfa hennar hefur verið lögð fram og samþykkt í sveitarstjórn. Með samþykkt sveitarstjórnar er Staðardagskráin orðin að formlegu stefnumótunarplaggi, og þar með er kominn tími til að hrinda henni í framkvæmd. Auk heldur þarf Staðardagskráin að vera í stöðugri endurskoðun í takt við breytta tíma og nýjar áherslur. Staðardagskrá 21 er með öðrum orðum ekki bara skjal, og ekki bara umhverfisáætlun, heldur fyrst og fremst ferli.

Á haustmánuðum 1998 hófu íslensk sveitarfélög skipulagt starf við gerð Staðardagskrár 21.

Eftirfarandi fimm atriði hafa verið skilgreind sem meginþættir eða vegvísar fyrir Staðardagskrárstarfið:

  • Heildarsýn og þverfagleg hugsun
  • Virk þátttaka íbúanna
  • Hringrásarviðhorf
  • Tillit til hnattrænna sjónarmiða
  • Áhersla á langtímaáætlanir
Sjá nánar á vef Samands íslenskra sveitarfélaga, 
http://www.samband.is/template1.asp?id=746&