Skírdagskvöld, fimmtudaginn, 1. apríl kl. 20:30 verður hin frábæra djasssöngkona Kristjana Stefánsdóttir með tónleika í í Hólaneskirkju. Hún mun syngja lög við allra hæfi og fella þau inn í hátíðaleika kvöldsins og dymbilbikunnar.
Kristjana er þekkt söngkona og hefur verið leiðandi söngkona í Íslensku jazzlífi um árabil.
Fyrsta plata hennar, „Ég verð heima um jólin“, með Kvartett Kristjönu Stefáns kom út 1996. Síðan hefur hún hljóðritað bæði í eigin nafni og sem gestasöngvari og komið reglulega fram í útvarpi, sjónvarpi og á tónleikum.
Sólóplatan „Kristjana“ frá árinu 2001 (gefin út í Japan 2005) var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2001. Platan „Fagra veröld“ sem gefin var út 2002 var einnig tilnefnd. Á henni syngur hún lög Sunnu Gunnlaugsdóttur við ljóð ýmissa höfunda.
Geislaplatan „Ég um þig“ kom út 2005 (gefin út í Kóreu 2007) og var samstarfsverkefni hennar með píanistanum Agnari Má Magnússyni. Hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem Jassplata ársins.
Árið 2006 kom út geislapalatan „Hvar er tunglið?“. Á henni syngur Kristjana lög Sigurðar Flosasonar við ljóð Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar. Fyrir það var Kristjana tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem flytjandi ársins 2006.
Nýjasta sólóplata hennar kom út í ágúst 2009 og ber nafnið „Better Days Blues“ og inniheldur eigin tónsmíðar og erlend lög í blús stíl Kristjana sá um upptökustjórn og útsetningar.
Kristjana hefur haldið tónleika víða, m.a. í Hollandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Englandi, Finnlandi, Danmörku og Japan.