Við fjölskyldan viljum þakka fyrir ómetanlegan stuðning sem við höfum fundið fyrir síðan litli stubburinn okkar hann Guðjón Óli fór í aðgerð þann 26. mars og varð fyrir súrefnisskorti sem svo leiddi til alvarlegs heilaskaða.
Leiðin frá aðgerðinni afdrifaríku hefur verið löng, erfið og oft á tíðum virst algerlega ófær. En þegar á reynir er gott að eiga góða að! Og höfum við fjölskyldan svo sannarlega fengið að kynnast því.
Í kjölfar aðgerðarinnar hefur fólk fylkst okkur að baki og styrkt okkur og stutt í gegnum ófæra skafla og ógnvænlegar hafsins öldur en það ber vissulega að þakka.
Foreldrar, systkini, aðrir ættingjar, vinir, nágrannar, sveitungar, samstarfsfélagar og hreinlega aragrúi af góðu fólki hefur sýnt okkur endalausa velvild og hlýjann hug. Góðar kveðjur hafa borist víðsvegar að úr heiminum og er samstaðan að okkar baki hreint út sagt ótrúleg, það sýndi sig eftirminnilega nú 10. nóvember þegar haldinn var samstöðuskemmtun í Félagsheimilinu á Blönduósi fyrir fullu húsi og rúmlega það af tilstuðlan vina, ættingja, umf. Hvatar og annara velunnara. Samhugurinn sem þar var, var reyndar það mikill að engin orð fá því lýst, eða eins og einn góður maður sagði við okkur „Það hefði verið hægt að sameina Austur húnavatnssýsluna eins og hún leggur sig og meira að segja við Vestur sýsluna líka“ Og það finnst okkur segja meir en mörg orð.
Hvað sem öðru líður, þá erum við fjölskyldan afskaplega þakklát fyrir alla þá aðstoð og velvild sem okkur hefur verið sýnd á þessum erfiðu tímum.
Við viljum hér með þakka öllum þeim sem stutt hafa við bakið á okkur og þá þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg við skipulagningu og framkvæmd á samstöðuskemmtuninni þann 10 nóvember síðastliðinn. Þessi dagur rennur okkur aldrei úr minni.
Með kærum kveðjum og innilegu þakklæti,
Þórdís Erla, Jón Örn og synir.