Á laugardaginn verður opnað Kántrýsetur í Kántrýbæ. Mikið verður um að vera í bænum af því tilefni. Kastljós fjölmiðla beinist að Skagaströnd. Rás 2 verður með beinar útsendingar úr bænum á föstudag og laugardag.
Í Kántrýsetrinu verður ævintýraleg og óvenjuleg saga Hallbjörns Hjartarsonar til sýnis, allt frá fæðingu fram á þennan dag. Saga sem hófst í líkhúsinu á Blönduósi því Hallbjörn var talinn andvana við fæðingu. Hann hafði hins vegar einsett sér að lifa og eins og þeir vita sem þekkja hann heldur hann alltaf sínu striki, hvað sem hver segir. Ótal margir hafa hrist höfuðið yfir uppátækjum hans, allt frá því hann var barn. Sjálfur segist hann alltaf hafa haft sína vitleysu á þurru, ólíkt mörgum og draumur hans um að gera Skagaströnd að eftirsóknarverðum ferðamannastað hefur sannarlega ræst.
Formleg opnun setursins verður laugardaginn 11. júní og af því tilefni hefur Magnús Kjartansson búið til heiðurshljómsveit Hallbjörns Hjartarssonar með söngvarana Björgvin Halldórsson, Selmu Björnsdóttur og Heiðu Ólafsdóttur í fararbroddi. Hljómsveitin mun halda tónleika í Kántrýbæ og slá svo upp sannkölluðu kántrýballi að hætti kúreka norðursins.
Hugmyndin um Kántrýsetur er ekki ný af nálinni en er nú loks að verða að veruleika. Það eru núverandi rekstraraðilar Kántrýbæjar, þau Gunnar Sveinn Halldórsson og Svenny H. Hallbjörnsdóttir (Hjartarsonar) sem standa að setrinu með stuðningi Menningarráðs Norðurlands vestra, Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli, Sveitarfélagsins Skagastrandar og Iðnaðarráðneytis.
Umsjón með verkefninu hafði Margrét Blöndal, útvarpskona með meiru og um hönnun og uppsetningu sá Björn G. Björnsson, leikmyndahönnuður.
Kántrýsetrið verður opnað með viðhöfn kl. 15.00 Þá býður
Margrét Blöndal, útvarpskona gesti velkomna. Dagskráin er eftirfarandi:
- Ávörp
- Heiðurshljómsveit Hallbjörns Hjartarssonar spilar en hana skipa Magnús Kjartansson og félagar
- Björgvin, Selma og Heiða flytja þrjú lög eftir kántrýkónginn
- Kántrýsetrið opnað, klippt á borðann
- Tónleikar í Kántrýbæ kl. 20.00 – 21.30
til heiðurs Hallbirni Hjartarsyni, Björgvin, Selma og Heiða.
- Kántrýball verður frá kl. 23:00, heiðurshljómsveitin leikur fyrir dansi
Að sjálfsögðu eru allir velkomnir. Dagskráin er frábær … gleði, fjör og mikil skemmtun fyrir fólk á öllum aldri. Og ekki má gleyma sjálfu Kántrýsetrinu. Það er er fróðleg sýning um kántrýkónginn Hallbjörn og kántrýtónlistina á Íslandi.
Á föstudaginn verður síðdegisútvarp Rásar 2 á Skagaströnd og sendir út beint frá kl. 16-18.
Á laugardagsmorguninn verður þátturinn Bergson & Blöndal verður sendur úr frá Skagaströnd.