Karlar lesa - konur bíða

Karlmenn á Skagaströnd sitja um þessar mundir við lestur og að öllum líkindum bíða konur þeirra þolinmóðar eftir því að sú stund renni upp að lestrinum ljúki. Þá er væntanlega betri tíð í vændum enda nefnist bókin „Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama“ og henni hefur verið dreift í hvert hús á Skagaströnd.

 

Um er að ræða gjöf frá Þorgrími Þráinssyni, rithöfundi, sem dvaldi hér í bænum í júní við ritstörf á vegum Nes-listamiðstöðvar. Svo ánægður var Þorgrímur með dvöl sína, að á upplestrarkvöldi í lok júní sagðist hann ætla að gefa bæjarbúum áðurnefnda bók. Hún kom út um síðustu jól og seldist í stóru upplagi. Og Þorgrímur stóð við loforð sitt og henni var dreift í gærkvöldi.

 

Eflaust verða einhverjir til að grínast með bókargjöfina, fullyrða líklega margir að henni sé ætlað að bæta úr sárri neyð á Skagaströnd. Hvað sem kann að vera satt í því slíkum staðhæfingum þá hljóta hin hamingjusömu sögulok að verða þau að allir karlar verði nú betur að sér og konur njóti. Annað kemur vart til greina.

 

Vonandi kemur Þorgrímur aftur til dvalar á Skagaströnd, hann er velkominn og engra launa verður krafist af honum frekar en öðrum dvalargestum. Hins vegar er bókargjöfin óvænt en afskaplega skemmtileg tilbreyting í bæjarbraginn.