Kistill Þórdísar spákonu var í gær fluttur upp á Spákonufell og þar komið fyrir í vörðunni. Hann geymir gestabók fjallsins og áheitastein.
Kistlinum er komið fyrir við gömlu vörðuna og var hlaðið í kringum hann þannig að engu líkar er en hann að sitji efst í henni.
Kistillinn var formlega vígður. Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, tónaði viðeigandi erindi úr Hávamálum og Völuspá. Halldór Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol ehf. var meðhjálpari við vígsluna.
Í kistlinum er eftirfarandi texti:
Velkomin á Borgarhaus
Þetta er kistill Þórdísar spákonu. Hann geymir gestabók og áheitastein.
Hvatt er til þess að göngufólk riti nafn sitt í bókina.
Á steininn er rist rúnin Ægishjálmur. Hann getur unnið bæði mein og bót.
Hins vegar er náttúra steinsins slík að einungis óeigingjarnar og góðar óskir eða áheit gagnast. Viðbúið er að ill áheit og ófrómar óskir snúist og hitti þann sjálfan sem óskar.
Þórdís spákona var fégjörn nokkuð og því gæti verið til bóta að leggja í sjóð hennar ef mikið liggur við.
Mikilvægt er að ætíð sé vel frá kistlinum gengið.
Sá sem spillir því sem hér er, má búast við ævilangri ógæfu.
Góða heimferð - gætið varúðar í fjallinu
Kistillinn er einstaklega fallegur gripur sem Helgi Gunnarsson, trésmiður á Skagagströnd bjó til. Ari Jón Þórsson hjá Vélaverkstæði Skagastrandar sá um að leggja kopar á kannta, læsingar, undirstöður og annað. Fyrir vikið er kistillinn ansi forn í útliti og engu líkar en þarna sé sá kistill kominn sem Þórdís spákona lagði forðum fjársjóð sinn í og kom fyrir í hömrum Borgarhaussins.
Heljarmennið Jón Heiðar Jónsson tók 15 kg kistilinn á bakið og flutti upp á fjallið ásamt járngrindinni sem notuð er til að festa hann.
Þess er vænst að kistill Þórdísar verði nú á Borgarhausnum að minnsta kosti næstu tvöhundruð og fimmtíu ár en það er sá endingartími sem Helgi og Ari geta ábyrgst.