Kynningarfundur um netsölukerfi í ferðaþjónustu

Snemma árs 2009 réðst Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði í undirbúningsvinnu við fyrirtækis um rekstur netsölukerfis. Ráðinn var starfsmaður, leitað var ráðgjafar hjá allmörgum og helstu netsölukerfi á markaðnum voru skoðuð. 

Niðurstöður lágu fyrir á vormánuðum og var talið að Dísil-Booking-kerfið væri það öflugasta og áreiðanlegasta sem völ væri á í dag. Á það er komin góð reynsla, eins og dæmin sanna (sjá t.d. netsölukerfi Reykjavík Excursions á re.is, en þar hafa sölutekjur margfaldast síðan kerfið var tekið í notkun). 

Ákveðið var að bíða með kaup á kerfi í fyrra, en þess í stað var farið út í tilraunaverkefni um beina sölu á ferðaþjónustu,  í samstarfi við Upplýsingamiðstöð ferðamála á Norðurlandi vestra. Á rúmum tveimur mánuðum seldi miðstöðin fyrir um eina og hálfa milljón króna. Þeir sem voru duglegastir að bjóða uppá fastar ferðir og koma þeim upplýsingum daglega á framfæri við Upplýsingamiðstöðina, fundu fyrir talsverðri aukningu og seldu vel. Dæmi um góðan árangur eru sala á flúðasiglingum Ævintýraferða og hestaferðum á Lýtingsstöðum. Reynsla sumarsins var dýrmæt og nýtist í framhaldinu. 

Stofnun og rekstur Icelandbooking ehf
Vaxtarsamningur Norðurlands vestra veitti styrk til að koma fyrirtækinu á laggirnar, auk þess sem þegar liggja fyrir hlutafjárloforð uppá hálfa milljón króna. Stefnt er að því að hluthafar verði alls um 20-25, með heildarhlutafé uppá tvær milljónir króna. Með því væri rekstrargrundvöllur tryggður til tveggja ára, en það er sá tími sem áætlað er að taki reksturinn að verða sjálfbæran.
Kynningarfundir miðvikudaginn 3. febrúar.
  • Kl. 09:30 – Hótel Varmahlíð
  • Kl. 13:30 – Hótel Blönduós
  • Kl. 16:30 – Sveitasetrið Gauksmýri
Þar verður m.a. sagt frá reynslu af sölunni í Uppl.miðstöðinni 2009 og kostir netsölukerfisins kynntir. Farið verður yfir rekstrarforsendur og framtíðarsýn Icelandbooking ehf og hver ávinningur ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi vestra getur orðið.  Kaffiveitingar og umræður að kynningu lokinni. 

Kynning á netsölukerfi Icelandbooking.is

Gríðarleg aukning hefur orðið í því að ferðalangar skipuleggi fríin sín sitjandi við tölvuna heima og ferðist á eigin vegum. Á ráðstefnu Útflutningsráðs fyrr í vetur kom fram að þeir sem eru ekki að selja á netinu í dag eru beinlínis að tapa viðskiptum. 

Það er ekki nóg að hafa vefsíðu; hún þarf að finnast í leitarvélunum og það þarf að vera hægt að smella á „kaupa“!  Krafa netnotandans í dag er að geta keypt á netinu það sem hefur vakið áhuga hans. Velta og hagnaður þeirra sem selja vörur sínar í netsölu vex með ótrúlegum hraða. 

Gott netsölukerfi (gagnagrunnur sem heldur utan um vöruframboðið) og góð markaðssetning á sölusíðu (sá hluti sem sýnilegur er kaupanda) er hinsvegar ekki á færi nema stærri eða fjársterkari aðila. Á næstu árum eigum við eftir að sjá þetta leyst með öflugum sölusíðum, þar sem vörur margra smærri aðila eru í boði og mynda fjölbreitt og gott vöruframboð (nýlegt íslenskt dæmi eru litlubudirnar.is). 

Ákveðið hefur verið að stofna einkahlutafélag um rekstur netsölukerfisins Icelandbooking.is fyrir ferðaþjónustu á Norðurland vestra, til að auðvelda fyrirtækjum að selja sínar vörur á netinu. Þegar horft er yfir sviðið er kynningarefni á vefsíðum oft með ágætum, bæði hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum sjálfum og t.d. Visitskagafjordur.is, Nordurland.is, Northwest.is. En því miður er á lítið um það á þessum síðum að hægt sé að ganga frá kaupum á vörum og þjónustu, með þeim hætti sem í dag skilar mestum árangri.

Markmiðið með stofnun fyrirtækisins Icelandbooking.is, þar sem ferðaþjónustuaðilum af Norðurlandi vestra er boðið að vera hluthafar, er að ávinningur verði sem mestur fyrir heimamenn og að hagnaður af rekstri verði eftir heima í héraði.  

Ávinningur öflugs netsölukerfis er margþættur:
  • Meiri sýnileiki á netinu, m.a. með tilliti til leitarvéla
  • Góður söluvefur er ódýrasta og hagkvæmasta markaðstæki sem völ er á
  • Netsölukerfi Icelandbooking er sjálfsafgreiðslustöð fyrir ferðamenn
  • Gott vöruframboð á einum stað
  • Ferðamaður raðar sjálfur saman mörgum vörum í körfu
  • Aukning á sölutekjum og arðsemi
  • Auðvelt að útbúa „ferðapakka“ úr þeim vörum sem eru í kerfinu (hestahelgi í Húnaþingi?)
  • Meiri skilvirkni og mikill vinnusparnaður við hverja sölu
  • Tekjur skila sér fyrr inn í reksturinn
  • Hagnaður af rekstri netsölukerfis verður eftir hjá hluthöfum í heimabyggð
  • Eigendur Icelandbooking.is ráða för í þróun á netsölukerfisins