Umræðan um læsi íslenskra barna hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum, enda um mjög mikilvægan þátt í vegferð barnanna okkar að ræða. Sjá:http://www.menntamalaraduneyti.is/gottadlesa/
Öll þurfum við að kunna að lesa, allt byggir á góðri lestrarkunnáttu. Því er það að heimili og skóli þurfa að taka höndum saman og sinna lestrarnámi barnanna í sameiningu. Lestrarþjálfun er sameiginlegt verkefni okkar allra. Það er gömul saga og ný að æfingin skapar meistarann. Lestrarfærni næst ekki ef aldrei er lesið heima, ekki frekar en færni á hljóðfæri. Ef tónlistarnemandi æfir sig ekki heima, þá verða engar framfarir. Sömu sögu er að segja um lestrarfærni. Barn sem aldrei les heima, nær seint og illa framförum í lestri og það hefur mikið að segja varðandi gengi barnsins í námi almennt.
Við í Höfðaskóla viljum beina þeim tilmælum til foreldra/forráðamanna að vera vakandi varðandi lestrarþjálfun barnanna sinna og sjá til þess að þau lesi upphátt heima. Þetta á ekki síður við eldri nemendur en þau yngri.
Það má finna alls konar lestrarefni sem höfðar til barnanna. Þetta getur verið ánægjuleg samverustund fjölskyldu þar sem allir skiptast á að lesa upphátt fyrir hina og ræða efnið í kjölfarið. Það eykur lesskilning.
Verum samtaka í þessu mikilvæga verkefni og höfum það að sameiginlegu markmiði að gera börnin okkar vel læs sem fyrst.
Með góðri kveðju
Vera Ósk Valgarðsdóttir
Skólastjóri