Kántrýbær á Skagaströnd hefur um nokkurn tíma undirbúið stofnun Kántrýsafns. Safnið á fyrst og byggja á lífi og starfi kúrekans landsþekkta, Hallbjörns Hjartarsonar, sem oft er nefndur kántrýkóngur Íslands.
Nú hefur verið ákveðið að safnið verði opnað í byrjun sumars á næsta ári, stefnt er á afmælisdag Hallbjörns sem er 5. júní.
Björn Björnsson, leikmyndahönnuður, hefur unnið að hönnun sýningarinnar, en hann hefur mikla reynslu af sviðsetningu sýninga af þessu tagi. Nefna má Jöklasýninguna á Hornafirði, Saltfisksetrið í Grindavík og fleiri. Einnig vinnur útvarpskonan geðþekka, Margrét Blöndal, að því að safna efni um Hallbjörn í Sjónvarpinu og hjá Stöð2. Hún mun taka sjónvarpsviðtal við kúrekan eftir áramótin og kaflar úr því verða nýttir til safnsins.
Sem kunnugt er hefur Svenný, dóttir Hallbjörns, og maður hennar, Gunnar Halldórsson, rekið Kántrýbæ í mörg ár. Þau standa að undirbúningi safnsins og leita nú til almennings um myndir gamlar af Hallbirni, gamla Kantrýbæ, brunanum, nýja Kántrýbæ, byggingu hans, Kántrýhátíðum eða í raun öllu sem tengist kántrý á Skagaströnd.
Hægt er að senda myndir í pósti á Kántrýbæ á Skagaströnd, tölvupósti á kantry@kantry.is eða hringja í síma 869 1709.
Meðfylgjandi mynd er tekin á einni af fyrstu Kántrýhátíðunum á Skagaströnd.