Sameiginleg mál- og læsisstefna leik-og grunnskóla í Húnavatnssýslum og leikskólanum á Hólmavík
Skólastjórnendur leik-og grunnskóla í Austur Húnvatnssýslu, Húnaþingi vestra og leikskólanum á Hólmavík hafa ákveðið að vinna að sameiginlegri mál- og læsisstefnu skólanna í samræmi við ákvæði í Aðalnámskrá leik- og grunnskóla og þann 24. nóv. s.l. undirrituðu skólastjórar viljayfirlýsingu um að stefna sameiginlega að þessu markmiði.
Stefnt skal að því að vinna heildstæða mál- og læsisstefnu fyrir leik- og grunnskóla en hver skóli mun síðan í framhaldinu móta sína eigin stefnu sem tekur mið af þeirri sameiginlegu. Í grunnskólunum er nú unnið að þróunarverkefninu Orð af orði undir handleiðslu Guðmundar Engilbertssonar lektors við Háskólann á Akureyri. Í leikskólunum er unnið að þróunarverkefninu Málþroski og læsi, færni til framtíðar og þar er verkefnastjóri Ásthildur Bj. Snorradóttir talmeinafræðingur.
Í hverjum skóla er starfandi teymi sem ber ábyrgð á faglegri vinnu varðandi mál og læsi innan hvers skóla en tengiliðir frá skólunum hittast reglulega og vinna að sameiginlegri stefnu.
Markmiðið með þessari vinnu er að efla málþroska og færni allra nemenda á báðum skólastigum er varðar læsi í víðum skilningi og með áherslu á snemmtæka íhlutun. Ábyrgðamenn verkefnisins í leikskólunum eru Guðrún Lára Magnúsdóttir leikskólastjóri í Ásgarði og Borðeyri og Þórdís Hauksdóttir fræðslustjóri Austur Húnavatnssýslu sem einnig er ábyrgðarmaður fyrir verkefninu í grunnskólunum ásamt Kristínu Ólöfu Þórarinsdóttur aðstoðarskólastjóra Grunnskóla Húnaþings vestra.