Það er miðvikudagur 13. júní, stafalogn og dálítið skýað. Í höfninni á Skagaströnd liggja bátarnir við bryggjuna án þess að haggast á spegilsléttum sjónum. Sumir eru mannlausir, eiga sér stund milli stríða, áður en þeim verður fleytt á hraðsiglingu út á miðin á ný. Aðrir eru undir löndunarkrana, komnir með afla dagsins að landi enn aðrir eru að koma úr róðri. Sjómennirnir ganga frá fiski til vigtunar og sölu á fiskmarkaði. Þeir láta lítið yfir sér og gefa ekki mikið út á hvort fiskiríið er gott eða slæmt. Einn segist hafa fengið fjögur tonn einhverjar 18-20 mílur. Ekki gefið upp hvar, góðir veiðistaðir eru heilög vé þeirra. Bátarnir eru flestir af stærðinni 8-15 tonn sumir nýlegir með öllum búnaði, jafnvel beitningavélum. Líklega eru um 15-20 bátar á línuveiðum sem landa á Skagastrandarhöfn, margir langt að komnir. Þeir hafa misjafnar forsendur til veiðanna. Bæði eru bátarnir mismunandi og ekki síður veiðiheimildirnar sem þeri hafa. Sumir eru að horfa í kvótann hvað þeir eigi mikið eftir af hverri tegund og hvort hægt verði að leigja meira til að klára kvótaárið, aðrir hafa kvótasterka aðila á bak við sig og mega veiða eins og þeir geta. Byggðakvóti er ekki nefndur á nafn enda fiskveiðiárið að verða búið og ekki farið að hleypa umsóknum að, hvað þá að nokkur viti hvernig úthlutun hans verður. Þórey hafnarvörður, sem vigtar allan afla sem kemur að landi, segir landaðan afla á dag dálítið breytilegan. Það hafi verið svona 25 -50 tonn á dag en hún viti auðvitað ekki hvað þeir séu að taka aflann á mörg bjóð. Fiskiríði hafi verið betra upp á síðkastið en fyrir svona 10 dögum.
Annarsstaðar á höfninni er verið að gera klárt til dragnótaveiða. Fiskiþvottakar stendur uppi á bíl tilbúið til að hífa um borð og menn að skoða spiltengingar og fara yfir búnaðinn. Hafrúnin bíður nýmáluð og tilbúin til nýrra veiðiferða.