Nú verða sagðar veðurfréttir. Veðrið á Skagaströnd í nóvember var með miklum ágætum. Skiptist á frost og frostleysur. Vindur blés eins og lög gera ráð fyrir, stundum hressilega en oftar en ekki var hann frekar máttlaus.
Þessa skýru staðreyndir liggja nú ljósar fyrir vegna þess að veðurstöð var tekin í notkun á Skagaströnd þann 9. nóvember síðastliðinn. Hún er staðsett við höfnina og upplýsingar um mælingar er að finna á hér vinstra megin.
Veðurstöðin geymir upplýsingar um vindstyrk, vind í hviðum, vindátt, loftþrýsting og lofthita og hægt er að vista þær á Excel skjal. Stöðin skráir ofangreindar staðreyndir á tíu mínútna fresti.
Samanteknar upplýsingar um vindstyrk og hitastig í nóvember má sjá á meðfylgjandi línuritum.
Meðalhitinn í nóvember, frá 9. til 30. var 0,5 gráður.
Hæstur meðalhitinn var 6,7 gráður miðvikudaginn þann 19. Lægstur meðalhitinn var -3,9 gráður sunnudaginn 12.
Í tólf daga var frost í nóvember en 8 daga var hitinn yfir frosmarki.
Líklegast hefur það engan tilgang að birta meðalvindstyrk mánaðarins. Engu að síður var hann 6 m/s.
Fimm daga í nóvember var hvassara en 10 m/s. Yfirleitt var lygnara. Til dæmis hreyfði vart vind dagana 19. til 25. nóvember. Raunar bera að geta að svo lygnt er á Skagaströnd að allan mánuðinn bærðist ekki hár á höfði þess sem þessar línur ritar.
Enn hafa ekki verið teknar saman upplýsingar um vindátt. Þó má gera ráð fyrir að vindur hafi staðið úr einhverjum höfuðáttunum eða um það bil. Vandinn hér lýtur að því að búa til vindrós á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Kunni einhver skil á því væri gott að fá aðstoð við það.
Væntanlega verður haldið áfram að segja frá því indæla veðri sem alltaf ríkir á hér og það stutt með tölum frá Veðurstofu Skagastrandar. Að vísu sagði glöggur maður einhvern tímann að sennilegasta lygin væri sú sem byggir á meðaltali.