Veðurstofa Skagastrandar hefur gefið út yfirlit yfir veðrið á Skagaströnd í nýliðnum janúar. Sumir telja verðið hafa verið til vandræða. Það er rangt og yfirleitt haldið fram af þeim sem einkum halda sig innandyra.
Skortur á snjókomu var nokkur og sá snjór sem náði til jarðar var á iðulausu ferðalagi hluta mánaðarins og endaði yfirleitt við húsveggi og lét þar mikið yfir sér. Stöku götur fennti í kaf og mikla vélavinnu þurfti til að ryðja þær. Svo ringdi og hvarf þá snjórinn á augabragði, hraðar en nokkur vél getur afkastað.
Meðalhitinn í janúar var aðeins hærri en í desember, var 0,7 gráður en í desember var hann 0,5.
Hlýjasti dagur mánaðarins var 22. janúar en þá fór meðalhitinn upp í 6,3 gráður. Mjög hlýtt var þá og fór hitinn hæst upp í 8,6 gráður um klukkan 18 þennan dag. Ekki kólnaði þótt liði á nóttina. Um klukkan 5.50 næsta morgun, 23. janúar, náði hitinn 7 gráðum og meðalhiti þess dags var 5,2 gráður en fór síðan lækkandi til mánaðarmóta.
Kaldasti dagur mánaðarins var 6. janúar. Þá fór meðalhitinn niður í -9,4 gráður en hann segir nú ekki alla söguna því frostið fór ofan í -11,1 gráður klukkan 17 þann dag. Raunar var brunagaddur frá því kl. 9 um morguninn og fram til klukkan 21 um kvöldið. Frostið fór þá sjaldnast aldrei undir tíu gráður.
Frá 4. janúar og fram til þess 18. dvaldi hitamælirinn flesta daga undir frostmarki en eftir það var aldrei frost á Skagaströnd sé enn og aftur reiknað með hinu lygilega meðaltali.
Vindgangur var nokkur á Skagaströnd í janúar. Í kuldakaflanum í byrjun mánaðarins fór blés vindurinn langtímum saman yfir 20 m/s. Þannig var meðalvindhraðinn 7. janúar 17 m/s, en fór þann dag hæst upp í 24 m/s og hélt sínum krafti frá því klukkan átta um morguninn og langt fram yfir hádegi. Það þykir bornum og barnfæddum Skagstrendingum heldur lítið og ylja sér við minningar um stórviðri sem entust jafnvel lengur en í viku. Það draga aðfluttir stórlega í efa og furða sig um leið á minnisleysi samborgara sinna.
Hvað um það, vindhraðinn og meðalvindhraðinn segja ekki nándar nærri eins mikla sögu og hviðurnar. Þær slógu tímunum saman á þessum fárviðrisdegi yfir 30 m/s og undruðust dvalargestir Ness listamiðstöðvar hvernig húsin gæti staðist svona áhlaup en þakkaði jafnframt hver sínum sæla fyrir þá staðreynd.
Ekki er mæld úrkoma á Skagaströnd enda flestum ljóst hvenær rignir eða snjóar. Þó veðurstofa Skagastrandar átti sig á því hvaðan vindurinn blæs er erfiðara að koma þeim upplýsingum á framfæri svo vel sé. Skárst væri að búa til svokallaða vindrós en hvernig það er gert er óbreyttum starfsmönnum veðurstofunnar hulin ráðgáta. Þó er greinilegt að norðlægar áttir voru algengastar fyrri hluta janúar enda fylgir þeim oft lægra hitastig.
Áhugasömum um veður er bent á að hægt er að framkalla ólíklegustu upplýsingar um veðrið með því að skoða boxið hér vinstra megin sem í stendur „Veðrið á Skagaströnd“.
Meðfylgjandi myndir voru teknar þann 7. janúar. Þá þurfti björgunarsveit til að flytja starfsmenn Vinnumálastofnunar til síns heima. Aðrir settu undir sig hausinn og sumir bjuggu svo vel að geta ekið í ófærðinni á fjórhjóli.
Spá veðurstofu Skagastrandar fyrir febrúar er tilbúin. Helst er úr henni að frétta að vorið er enn fjarri. snjóa mun í febrúar, stundum verður hvasst, sjaldan mjög hvasst. Frost verður af og til og þess á milli hitnar. Mestur hiti verður í Skagstrendingum á komandi þorrablóti. Kaldast verður á Spákonufelli.