Menningarstyrkir 2007

Menningarráð Norðurlands vestra úthlutaði í fyrsta sinn menningarstyrkjum við athöfn í Hóladómkirkju föstudaginn 26. okt. sl.

 

Það var með undirritun þriggja ára menningarsamnings milli Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og ráðuneyta mennta- og ferðamála fyrr á þessu ári að grundvöllur skapaðist til þess að veita verkefnastyrki til þeirra einstaklinga, félaga eða fyrirtækja sem sinna menningarstarfi á svæðinu. Í framhaldi af samningnum var menningarfulltrúi ráðinn til starfa og auglýst eftir styrkumsóknum.

 

Ráðinu bárust alls 50 umsóknir þar sem óskað var eftir tæpum 50 milljónum í styrki. Fjörutíu og ein umsókn hlaut styrk og alls var úthlutað 17.650 þús. kr. Hæstu styrkir námu einni milljón króna en þeir lægstu voru eitt hundrað þúsund. Þau verkefni sem hlutu styrk voru mjög fjölbreytt, s.s. frumsamið leikrit, tónleikar, sögusýningar, varðveisla menningararfsins, ráðstefnur og útgáfustarfsemi.

 

Í ávarpi formanns Menningarráðs, Guðrúnar Helgadóttur, kom fram að þessi úthlutun markaði mikilvægan áfanga í menningarstarfi á Norðurlandi vestra og greinilegt væri að á Norðurlandi vestra starfaði öflugur hópur fólks að listum, fræðum og menningartengdri ferðaþjónustu. Guðrún telur að ein helsta atvinnuháttabreyting samtímans sé að mikilvægið færist frá framleiðslu efnislegra gæða í föstu formi yfir í framleiðslu á gæðum sem ekki er beint hægt að festa hönd á. Má þar nefna hluti eins og góð þjónusta, tilkomumikil leiksýning, hrífandi mynd, ljóð sem snertir tilfinningar, ímynd vöru og lag sem vekur minningar.

 

Við athöfnina sungu fjórar söngkonur úr Húnaþingi vestra við undirleik Guðmundar Helgasonar, Sólveig S. Einarsdóttir lék á orgel og Þórhallur Barðason söng. Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga tók til máls fyrir hönd styrkhafa og þakkaði veitta styrki sem hún sagði án efa verða til eflingar menningarlífi á svæðinu.

 

Eftirtaldir umsækjendur hlutu styrk að upphæð ein milljón:

Áhugahópur um styttu af ferjumanninum      - Gerð bronsstyttu af Jóni Ósmann.

Sveitasetrið Gauksmýri – Hrafnaþing, uppsetning sýningar um íslenska hrafninn.

Grettistak – Útgáfa bókar með myndum Halldórs Péturssonar af atburðum í Grettis sögu.

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga – Gerð stafræns ljósmyndasafns.

Karlakórinn Heimir – Dagskrá um Stefán Íslandi.

Ópera Skagafjarðar – La Traviata – tónleikar – upptaka – myndband.

Spákonuarfur – Gerð leikþáttar um Þórdísi spákonu o.fl.

Textílsetur Íslands, Blönduósi – Norrænt textílþing og sýning.

 

Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að hafa tvær úthlutanir á næsta ári með umsóknarfresti til 15. mars og 15. september.

 

Meðfylgjandi eru þrjár ljósmyndir – Ljósm.: Pétur Jónsson. Myndtextar: 

 

Mynd 1: Guðrún Helgadóttir, formaður menningarráðs, afhendir styrkhöfum viðurkenningu.

Mynd 2: Styrkhafar Menningarstyrks Norðurlands vestra

Mynd 3: Menningarráð Norðurlands vestra og menningarfulltrúi