„Þetta þykir nú bara ansi gott, fimm tonn af einum hektara,“ segir Jónatan Líndal frá Holtastöðum í Langadal. Hann stendur á kerruupalli og bíður eftir Júlíusi, bróður sínum, sem ekur þreskivélinni um byggakurinn á Skagströnd. „Heima fengum við tvö tonn af hverjum hektara en það var í sandi og þurrkar og sólbruni fóru illa með uppskeruna,“ bætir hann við.
Glæsileg sjón sem blasti við þeim sem rötuðu út á vetrarveg á Skagaströnd enda afar sjaldgæft að sjá stóra þreskivél á akri á þessum slóðum, raunar skiptir stærðin litlu máli, eins og sagt er, því akuryrkja hefur ekki tíðkast í manna minnum á þessum slóðum.
Jónatan er ekki viss en nefnir að hvergi á Íslandi sé byggakur norðar. Hallbjörn Björnsson, frumkvöðullinn í byggrækt á Skagaströnd og einn af akurmönnum, rámar þó í að á Tjörnesi sé akur og sá er nokkru norðan en Skagaströnd. Hann vildi þó ekki fullyrða neitt um það.
Hallbjörn hefur lengi verið áhugamaður um byggrækt á Skagaströnd en átt fáa formælendur þar til hann fann Adolf Berndsen og saman hófu þeir akuryrkjuna í fyrra.
„Núna er miklu betri uppskera,“ segir Hallbjörn. „Við erum með tvær tegundir af byggi, þær heita Þyrill og Olsok. Sú síðarnefndi hefur reynst aðeins betur. Í fyrra vorum við með fjórar tegundir og fækkuðum þeim í þessar tvær í ár. Svo bárum við skeljasand á akurinn enda er það trú manna að kalkið hafi góð áhrif á vöxtinn.
Nú svo skiptir miklu máli að rækta samfellt á sama akri, það bætir moldina og smám saman eykst afraksturinn. Vandinn hjá okkur er hins vegar sá að það er mikil bleyta í moldinni. Framræsluskurðir eru illa stíflaðir og því ekki von á góðu. Klaki í moldinni á vorin, síðan drulla sem tefur ferðir véla. Við verðum endilega að fá skurðina lagfærða fyrir næsta ár.“
Hallbjörn er ánægður með uppskeruna. Telur hana verða um fimm tonn og svo lýsir hann axinu, telur sex korn í ummálið og allt að tólf þar upp. „Þetta er bara með því besta sem gerist,“ segir hann, og Jónatan Líndal tekur undir það: „Við bjuggumst alls ekki við þessari uppskeru en kannski er moldin hérna útfrá betri en sandurinn inni í dölum. Þurrkar hafa ekki áhrif á uppskeruna hér né heldur óhóflegt sólskinið.“