Miklu fleiri gestir skoðuðu sig um á Spákonufellshöfða á því sumri sem nú er að líða en í fyrra. Alls skráðu 489 manns nafn sitt í gestabók í Höfðanum í sumar en í fyrra voru þau alls 193. Munurinn er talsverður og verður hann ekki aðeins skýrður með tilvísun í einstaklega gott veður heldur má líta til þess að gefin hefur verið út veglegur bæklingur um gönguleiðir í Höfðanum og hann endurútgefinn tvisvar. Líklegt err að hann hafi náð ágætri útbreiðslu.
Gestabók er ekki endilega góður mælir á fjölda gesta. Gera má ráð fyrir að fjölmargir skrifi ekki nafn sitt í hana, ýmist vegna þess að þeir fari ekki þangað sem hún er staðsett eða þeir hreinlega vilja það ekki af einhverjum ástæðum. Hvort gestir í Spákonufellshöfða eru tvöfalt fleiri eða þrefalt er tilefni í hollar vangaveltur.
Flestir gestir komu í juní og ágúst í sumar, 178 og 191, en í fyrra var gestafjöldinn svipaður í júlí og ágúst, 65 og 95 gestir.
Íslendingar eru langflestir af gestum í Höfðanum, bæði árin eru þeir 72% þeirra. Af áritinun í gestabókinni kemur í ljós að margir þeirra eru heimamenn og koma sumir margoft.
Næstfjölmennastir eru Þjóðverjar og þó þeim hafi fjölgað frá því í fyrra en hlutfall þeirra lægra, fór úr tæpum 11% í 5,5%.
Af öðrum gestum má nefna Frakka, Dani, Austurríkismenn, Spánverja, svisslendinga, Bandaríkjamenn og Breta.
Gera má ráð fyrir að stór hluti útlendinga sem leggja leið sína í Spákonufellshöfða séu listamenn frá Nes listamiðstöðinni á Skagaströnd. Fjölmargir þeirra hafa sagst leita í Höfðann eftir listrænum innblæstsri og jafnvel er það til að þeir hafi verið með listræna gerninga í honum.
Að lokum má nefna að gestir í Höfðanum koma víða að, t.d. frá Ástralíu, Nýja Sjálandi og jafnvel Malasíu.