MITT KORT hjá Landsbankanum komið í umferð á Skagaströnd

Fréttatilkynning frá Landsbankanum

18. ágúst 2005

 

Rebekka Maren Þórarinsdóttir var einn af fyrstu viðskiptavinum Landsbankans á Skagaströnd til að fá í hendur greiðslukort með persónulegu útliti, svokallað Mitt kort. Rebekka notaði mynd af sér á kortið sitt sem hún fékk afhent í útibúi Landsbankans á dögunum. Það er því ljóst að verslunarmenn mega eiga von á fjölbreyttum og skemmtilegum greiðslukortum því alls hafa um tvö þúsund viðskiptavinir Landsbankans um land allt hannað sín eigin greiðslukort og eru þau óðum að komast í umferð.

Æ fleiri nýta sér þann möguleika að setja eigin myndir á kort sín, til dæmis af börnum, maka, áhugamálum og gæludýrum. Einnig má velja úr sérstöku myndasafni bankans, þar sem meðal annars er að finna merki félaga í Landsbankadeildinni í knattspyrnu.

Allir viðskiptavinir Landsbankans geta fengið Mitt kort, bæði debet og kredit, án endurgjalds fyrst um sinn. Hönnun og umsókn kortanna fer fram á netinu (www.landsbanki.is) og er afgreiðslutíminn aðeins örfáir dagar.