Þessi loftmynd er af Spákonufellsborg eða Borgarhausnum sjálfum, tekin úr suð-austri. Hausinn er um 900 metra langur frá austri til vesturs og rennisléttur að ofan, vaxinn mjúkum, viðkvæmum mosa. Auðveldasta og öruggasta gönguleið upp á Borgarhausinn er eftir rindanum hægra megin á myndinni. Fremst á Borgarhausnum til hægri er stór grjótvarða en í henni er kistill með gestabók fyrir þá sem þar koma. Útsýn af Borgarhausnum er einstaklega gott í góðu skyggni. Hæðin sem ber yfir miðjan hausinn heitir Molduxi. Eins og sjá má eru gilin tvö í forgrunninum nánast ófær fyrir bratta enda heita þau Ófærugil og Illagil. Spákonufellið er um 640 metra hátt.