Sigurður Jónsson lést 24. október síðast liðinn.
Sigurður batt föggur sínar að mörgu leyti öðrum hnútum en algengast er. Hann var húmoristi, lestrarhestur og einn af bestu vinum bókasafnsins. Siggi var mikill áhugamður um tækni og hvernig hlutir voru saman settir og hvernig þeir virkuðu. Hafði gaman af að ferðast og skoða landið annað hvort í hópi eða bara einn með tjaldið sitt. Óáleitinn en margir leituðu til hans um hjálp með bilaða bíla og landbúnaðarvélar, sem honum tókst oftar en ekki að koma í nothæft ástand. Sigurður var mikill kattavinur og hann og Kisi voru óaðskiljanlegir vinir enda geyma margir mynd í huganum af þeim félögum í göngutúr þar sem Kisi fékk að ráða ferðinni en Siggi hélt í bandið, sem var um hálsinn á Kisa. Saman ferðast þeir nú inn í ljósið, sem bíður okkar allra.
Útför Sigurðar Jónssonar fer fram frá Hólaneskirkju klukkan 14:00 föstudaginn 11. nóvember.
Ljósmyndasafn Skagastrandar