Gamalt póstkort frá Skagaströnd. Á kortið er ritað þann 17. nóvember 1913. Tvílyfta húsið lengst til vinstri er Verslunarstjórahúsið, sem seinna var kallað Kaupfélagshúsið. Húsið var byggt um 1906 og stóð skammt vestan við núverandi Gamla kaupfélagið við Einbúastíg. Stóra rismikla húsið fyrir miðri mynd var pakkhús. Framundan því að norðanverðu sést í Assistentahúsið. Litla húsið vestan í Einbúanum var þvottahús. Eins og sést var þessi mynd tekin áður en vinna hófst við núverandi höfn (1934). Þá var Einbúinn klettadrangur sem stóð fram í sjó í víkinni sem annars var órofin frá Hólsnefi og inn að Bjargi (nú Breiðabliki). Þjóðtrúin segir að álfar búi í Einbúanum og því boði það ógæfu fyrir samfélgið ef hann verður skertur eða skemmdur á einhvern hátt. Leyfi fékkst þó hjá álfunum til að koma fyrir fánastöng efst á Einbúanum og þar er enn flaggað á tyllidögum. Myndina tók Evald Hemmert kaupmaður. |