Mynd vikunnar

 
Bryggjusmiðir
Mörgum finnst gott að eiga lítinn bát til að geta sótt
sér fisk í soðið. Allmargar jullur og smærri trillur eru
því til á Skagaströnd en slíkir bátar þarfnast aðstöðu
við hæfi eins og aðrir stærri bátar.
Vorið 1993 gerðu trillu- og jullukarlar samning við sveitarstjórn
um að fá að smíða flotbryggju fyrir báta sína og jafnframt um
staðsetningu hennar í höfninni. Samningurinn fól í sér að
sveitarfélagið skaffaði efni í bryggjuna en bátakarlarnir skyldu
smíða hana og hjálpa til við að koma henni fyrir.  Voru báðir
aðilar ánægðir með samninginn.
Fljótlega tók hópurinn á myndinni sig til og smíðaði tvær
flotbryggjulengjur sem tengdar voru saman í eina bryggju
þannig að það myndaðist viðlegupláss fyrir allmargar jullur.
Var bryggjunni komið fyrir ofan við (norðan við) og í skjóli við
smágarð.  
Reynslan af þessari bryggju var svo góð að nokkrum árum
síðar lét sveitarfélagið byggja aðra eins og koma fyrir á sömu
slóðum.
Á þessari mynd eru hressir bátakarlar við nýsmíðaða
flotbryggju - lengju 1993.
Frá vinstri: Jóhann Sigurjónsson, Guðmundur Björnsson,
Baldvin Hjaltason, Vilhjálmur Skaftason,
Skafti Fanndal Jónasson (d. 2.9.2006), Snorri Gíslason (d. 29.5.1994),
Þorvaldur Skaftason, Stefán Jósefsson, Árni Björn Ingvarsson og
Árni Geir Ingvarsson.
Á myndina vantar Ragnar Smára Ingvarsson og Ólaf Bernódusson
sem tók þessa mynd.  Þess má geta að nú 20 árum eftir smíðina  
eru bryggjurnar enn í fullri notkun yfir sumarmánuðina.