Rjúpnafell. |
Þetta hús er ekki til lengur. Húsið hét Rjúpnafell og stóð á sjávarbakkanum um það bil miðja vegu milli Hrafnár og Grundar. Guðberg Stefánsson frá Kambakoti byggði húsið upp úr 1950 og bjó þar til 1990 er hann fluttist í Sæborg. Guðberg var fæddur 27. júlí 1909 en dó 15. september 1991. Hann giftist aldrei og var barnlaus en lengi hafði hann hjá sér ráðskonu, Þóru Frímannsdóttur, sem var ekkja og hafði hún fósturson sinn, Eðvarð Ragnarsson, með sér í vistina. Sá Guðberg til þess að heimilið skorti aldrei það sem til þurfti og var þeim mæðginum afar góður. Manna á meðal gekk Guðberg undir nafninu Bergur sterki enda annálaður fyrir hreysti sína og þrek. Eru sagðar margar sögur af afrekum hans á þeim sviðum sem styrks og úthalds var krafist. Sjálfur hafi Bergur gaman af að segja sögur af styrk sínum og afrekum á sviði veiðiskapar en hann var veiðmaður af guðs náð og vílaði ekki fyrir sér að ganga langar leiðir og í langan tíma til að komast að bráð sinni, sem oftast var rjúpa eða tófa. Bergur sterki var einfari að mörgu leyti og hnýtti ekki alltaf sína hnúta á sama hátt og samferðamennirnir en var tryggur vinur og trúr þeim verkum sem hann tók að sér. |