Ræktunarátak í Spákonufelli |
Á þessari mynd, sem Guðrún Guðbjörnsdóttir tók, er Sigfús Jónsson sveitarstjóri á Skagaströnd að gera fólki grein fyrir skipulagi áburðar- og frædreifingar í Spákonufelli af verönd skíðaskálans áður en verkið er hafið. Eins og sjá má mætti fjöldi fólks til að taka þátt í þessu ræktunarátaki þar sem grasfræi og áburði var dreift á melinn norðan og ofan við skíðaskálann. Fullorðna fólkið sem þekkja má á myndinni, sem var tekin snemma á níunda áratugnum, er talið frá vinstri: Jökulrós Grímsdóttir, Bjarney Valdimarsdóttir, Sigfús Jónsson (snýr baki í myndavélina), Elínborg Jónsdóttir (d. 7.1.2007), Elísabet Kristjánsdóttir (d. 21.3.1991) (í rauðum stakk), Gylfi Sigurðsson, Jón Ingi Ingvarsson (með húfu), Ólafur Bernódusson og síðan grillir í Svein Ingólfsson og Lárus Ægi Guðmundsson. Sigfús stjórnaði dreifingunni eins og herforingi. Skipaði fólki í raðir og skammaðist ef einhver fór svo fram úr öðrum við dreifinguna. Því miður varð árangur dreifingarinnar fremur lítill en seinna var plantað Alaska lúpínu í melinn og hefur hún rækilega fest rætur og gjörbreytt ásýnd Spákonufellsins með sínum bláu blómum á sumrin. |