Mynd vikunnar

 

Síldarlöndun úr Húna HU-1

-

Síldarlöndun á Skagaströnd úr Húna HU-1. Þessi mynd var líklega
tekin rétt fyrir 1960 og sýnir Húna með fullfermi við löndunar-
bryggjuna á Skagaströnd.
Utan á Húna er svo nótabáturinn með síldarnótinni um borð.
Á þessum árum var síldarnótin lögð úr nótabátnum og síðan fóru
karlarnir um borð í hann og drógu hana inn í bátinn með handafli.
Hluti nótarinnar var fastur við Húna og þegar karlarnir í nótabátnum
voru búnir að draga nógu mikið af henni inn þá hafði síldin í nótinni
safnast saman í þétta torfu við hlið bátsins. Þá var háfnum, sem sést
fremst á dekkinu á Húna bakborðsmegin, sökkt í torfuna og síldin
þannig háfuð um borð.
Eftir að lestin var orðin full var háfað í stíur á dekkinu og gjarnan
voru síldarbátar á þessum árum með "merar" á lunningunum. 
Það voru trégrindur sem settar voru ofan á lunningarnar til að
hægt væri að koma meiri síld um borð.
Eftir í land var komið og síldin var nógu góð til að salta hana tók
við mikill þrældómur hjá sjómönnunum við að landa henni.
Við það verk voru notaðir handháfar og mokað með þeim í
velti - tunnu eins og sést á myndinni. Tunnan var svo hífð í land
og sturtað úr henni í handvagn eins og er á bryggjunni.
Vagninum var síðan ekið með handafli að síldakössunum þar
sem síldarstúlkurnar biðu óþolinmóðar eftir síldinni.
Trégöngubrautin sem sést ofan á síldinni var lögð ofan á síldina
og milligerðin í stíunum til að síldin merðist síður þegar gengið
var um skipið.                                                      
Húni HU-1 var smíðaður í Austur Þýskalandi 1957 og var 75 brl.
og kom nýr til Skagastrandar í október það ár.
Hann var síðan seldur frá Skagaströnd 1965 og fórst 2. mars
1976 með átta manna áhöfn en hét þá Hafrún ÁR. 
(Heimild: Sjósókn frá Skagaströnd & vélbátaskrá 1908 - 2010 eftir Lárus Ægi Guðmundsson)