Síld var söltuð á Skagaströnd a.m.k. frá árinu 1935 þegar búið var að koma upp trébryggju í nýgerðri höfn. Síðan var saltað á hverju sumri í áratugi eða þar til síldin hvarf upp úr 1960. Þegar söltun var í gangi var aldeilis handagangur í öskjunni því fjöldi manns starfaði á planinu. Í þá tíð var öll síld söltuð í trétunnur en þær voru smíðaðar á Siglufirði. Á þessari mynd, sem sennilega hefur verið tekin einhverntíma á árunum rétt fyrir 1960, sést Volvo bíll Benjamíns Sigurðssonar (d. 30.9.2004) frá Skálholti með fullfermi af síldartunnum. Tunnurnar voru svo tíndar af bílnum á höndum því engir voru lyftarar á þessum árum. |