Millilanda- og Strandferðaskipið Laura - Lára - á strandstað á Bótinni, í mars 1910. Allir björguðust en skipið brotnaði á strandstað því ekki tókst að draga það á flot aftur. Í baksýn sér í norðanverðan Höfðann. Svo vildi til að Guðrún Teitsdóttir (d. 17.6.1978) ljósmóðir í Árnesi - Guðrún ljósa - var farþegi með skipinu í þessari síðustu ferð Lauru. Hér fyrir neðan fer frásögn Guðrúnar af strandinu en frásögnin er tekin af vefsíðu sem afkomendur Guðrúnar hafa sett út á netið, (ljosmodir.wordpress.com/amma-hefur-ordid/). Myndina tók Evald Hemmert. LÁRUSTRANDIÐ"Haustið 1909 fór ég til Akureyrar til að læra að sauma. Ég hélt til hjá Valgerði Ólafsdóttur frænku minni. Hún bjó hjá syni sínum Halldóri. Hún kom mér fyrir hjá konu sem kenndi saumaskap. Og var ég þar í 6 mánuði. Mér langar mjög mikið til að læra dönsku því frænka mín var alltaf að lesa dönsku. Kom hún mér þá fyrir hjá Jórunni Sigurðardóttur sem hafði kvennaskóla og tók hún mig í dönskutíma og hafði ég gott af því. Svo fór ég heim í mars með gömlu Láru. Gekk það allt vel þar til við komum inn í Húnaflóa. Þar var hríðarveður. Stýrimaður kom inn til okkar stúlknanna um morguninn og sagði okkur að við skyldum liggja í rúminu þar til við kæmum til Skagastrandar um hádegisbil. Kojurnar okkar voru inn af matsalnum en í honum sátu 13 Fransmenn sem höfðu brotið skip sitt fyrir austan land og voru nú á leið suður. Svo þegar skipið fór að taka niður þá fór að heyrast í körlunum og bar mest á orðinu „malestia“ sem mér var sagt að væri svart blótsyrði og er það eina orðið sem ég kann í frönsku. Við þurftum að drífa okkur í fötin því skipið hallaði gífurlega. Og fórum upp á þiljur þá var skipið strandað og hvítfrissandi bárur allt í kring. Við sáum til lands framundan og okkur var sagt að við hefðum strandað fyrir utan höfðann á Skagaströnd. Svo voru settir út tveir bátar og vorum við stúlkurnar settar ofan í annan bátinn ásamt öðrum. Og kom fyrsti stýrimaður og settist undir stýrið svo var lagt af heimleiðis. Ferðin tók klukkutíma og var það köld ferð. Við komumst upp í víkina fyrir sunnan Hólanes og brutumst þar upp í gegnum mikla skafla. Svo var mér fylgt út á bæ til móðursystur minnar Maríu að nafni og bjó hún í Viðvík. Hún var móðir Gísla sem var faðir Snorra og Snorri er faðir Gísla sem þú þekkir. Fékk ég þar ágætis viðtökur og var þar um nóttina." |