Mynd vikunnar

 


Bankastræti í byggingu

Þessi mynd var tekin einhverntíma á árunum 1945 - 1950.
Þá var mikill uppgangstími á Skagaströnd og allmikið byggt af
íbúðarhúsnæði.
Þessi mynd var tekin af höfðanum  yfir Bankastrætið þar sem sjá má
fjögur hús í byggingu. Næst okkur til hægri er komin neðri hæðin af
Bankastræti 9 en í því húsi eru tvær íbúðir.
Svarta húsið næst því, þeim megin við götuna, eru Flankastaðir eða
Bankastræti 7. Þetta hús var rifið og nýtt hús byggt á sama stað.
Þá koma Kárastaðir - Bankastræti 5 - og þegar myndin var tekin hafði
nýlega verið byggt ofan á húsið og það gert tveggja hæða.
Fjórða húsið í þessari röð er svo Stórholt eða Bankastræti 3 orðið fokhelt.
Í því húsi eru þrjár íbúðir. Vinstra megin við Bankastrætið, næst okkur, eru
fjárhús og hlaða sem tilheyrðu Flankastöðum. Þar fyrir aftan er
Höfðabrekka - Bankastræti 10 - í byggingu og handan við það er verið að
byggja Bjarnarhöfn - Bankastræti 8.
Nær höfðanum ofan við Höfðabrekku sér í fjós sem tilheyrði Kárastöðum.
Húsið framan við Höfðabrekku er óþekkt og löngu horfið. Höfðakot er húsið
sem er lengst frá okkur vinstra megin við götuna ásamt áföstum fjárhúsum.
Vinstra megin við Stórholt er Skálholt en það hús stendur við Skagaveg.
Hin húsin sem standa við Skagaveg eru Þórshamar, Þórsmörk og
Héðinshöfði, sem sést bara hálfur á þessari mynd.
Hinum megin við Skagaveginn er Bjarmaland. Húsið sem stendur eitt og sér
lengst til hægri  er Gunnarshólmi sem oft var kallað Grafarbakki því
nærri því voru gamlar mógrafir.
Húsið sem ber yfir Kárastaði er annað hvort Sólheimar eða Valhöll
en þau bæði eru löngu horfin.
Götumyndin sem blasir við frá sama stað af höfðanum í dag er gjörbreytt
en það getur verið gaman að bera hana saman við þessa gömlu mynd.