Mikil umferð er um Skagastrandarhöfn allt árið en einkum þó á sumrin meðan á strandveiðunum stendur. Þetta er ekkert nýtt eins og þessi mynd frá 1936 - 1938 sýnir en þá var síld um allan Húnaflóa á sumrin og fjöldi báta, sem stundaði síldveiðar. Þá lá Skagastrandarhöfn vel við því stutt var þaðan á miðin. Í framhaldinu var svo tekin ákvörðun um að byggja síldarverksmiðju á Skagaströnd því mönnum datt ekki í hug að síldin mundi allt í einu breyta hegðunarmunstri sínu og hætta að ganga inn í Húnaflóann eins og hún hafði gert um áratugi. Á myndinni eru síldarskip í Skagastrandarhöfn kringum 1936. Húsið til hægri með skúrþakinu hét Kárastaðir, Dvergasteinn var húsið næst okkur fyrir miðri mynd með áfastri dökkri hlöðu. Þórshamar er nýlega húsið með kvistinum og neðar með götunni, sömu megin, er Garður. Til vinstri á myndinni eru Brúarland og Móar ásamt fleiri húsum sem einhver voru skepnuhús. Stóra þriggja hæða húsið nær sjónum er Gamla kaupfélagshúsið og á reitnum hjá því hægra megin er Kaupfélagshúsið og enn lengra til hægri grillir í frysthúsið. Húsið næst okkur á myndinni, ljóst með dökku þaki er óþekkt (stendur ca þar sem Skálholt stendur í dag). Ef þú kannt skil á hvað hús þetta er vinsamlega sendu okkur þá athugasemd á: myndasafn@skagastrond.is
|