Mynd vikunnar


Verslunin Borg

Verslunin Borg , sem var í húsinu á myndinni, var ekta krambúð
þar sem hægt var að fá keypt nánast hvað sem var til heimilisins.
Verslunina áttu og ráku hjónin Sigurður Sölvason (d. 24.9.1968)
og Margrét Konráðsdóttir (d. 17.9.1974).
Hjónin bjuggu í húsinu - í austurenda þess - en verslunin var í
meginhluta hússins.
Kjallari var undir því og var hann nýttur fyrir hluta af lager verslunarinnar.
Hinum megin við götuna var líka lagerhúsnæði, sem þau hjón
áttu, en það hús stendur enn.
Eftir að Sigurður lést var húsið selt rafmagnsfyrirtækinu Neistanum
sem þá var í eigu þeirra Jóns Inga Ingvarssonar og
Hallbjörns Björnssonar. Ráku þeir félagar saman rafverkstæði í
húsinu í allmörg ár.
Hallbjörn keypti síðan hlut Jóns Inga, þegar hann fór að starfa á
öðrum vettvangi. Hallbjörn byggði stórt húsnæði yfir starfsemi sína
ekki langt frá þessu húsi og þar hefur hann rekið
Neistann til þessa dags (janúar 2016). 
Húsið á myndinni var svo rifið  allnokkrum árum eftir að
Neistinn hafði flutt í sitt nýja húsnæði.