Sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur á Skagaströnd frá árinu 1939. Fastur liður í hátíðahöldunum er kappróður þar sem sjómenn og aðrir reyna með sér. Fyrst voru notaðar skektur sem menn áttu til fiskveiða við kappróðurinn en árið 1948 voru í fyrsta sinn notaðir sérsmíðaðir kappróðrarbátar - Gustur og Gola - sem voru smíðaðir á Akureyri í bátastöð Kristjáns Nóa Kristjánssonar. Á hverju ári síðan hefur verið keppt á Gusti og Golu. Bátarnir eru nú í umsjón og geymslu slysavarnadeildarinnar Strönd á Skagaströnd. (Heimild: "Sjómannadagurinn á Skagaströnd í 70 ár" eftir Lárus Ægi Guðmundsson, útg. 2009) Á þessari mynd frá sjómannadegi 1966 er sigursveit í kappróðri karla að taka við verðlaunapeningum sínum á planinu við Hafnarhúsið. Frá vinstri: Kristján Hjartarson (d. 2.8.2003), Sigmar Jóhannesson (d. 20.4.2000), Bernódus Ólafsson (d. 18.9.1996), sem er að hengja pening á sjálfan sig því hann var kynnir dagsins auk þess að vera stýrimaður þessarar sigursveitar, Eiður Hilmarsson, Karl Berndsen (d. 12.2.1995), Viggó Brynjólfsson og Gunnar Sveinsson. Börnin eru óþekkt. Myndin er úr safni Jóns Pálssonar og Bjarkar Axelsdóttur. |