Mynd vikunnar

 
Ísberg Ís

Í bókinni: Sjósókn frá Skagaströnd & Vélbátaskrá
1908-2010, eftir Lárus Ægi Guðmundsson segir
svo um þetta skip: 

" Ísberg. Þetta var 350 tonna flutningaskip sem keypt
var frá Noregi 1983 og var í eigu félagsins Ok h/f en
í því átti Skagstrendingur h/f um fjórðungshlut.
Skipið sökk í fyrstu ferð sinni en mannbjörg varð".
Myndina tók Árni Geir Ingvarsson þegar verið var að
lesta skipið í Skagastrandarhöfn fyrir síðustu för þess.
Dagblaðið DV sagði frá sjóslysinu á eftirfarandi
hátt 2. maí 1983:

"Mannbjörg varð er nýasta skip íslenska kaupskipaflotans,
Isberg IS, sökk eftir árekstur um 70 sjómílur
austur af Grimsby síðdegis á laugardag."

Atburðurinn átti sér stað um
klukkan 4 að íslenskum tíma. Þýskt
flutningaskip, Tilla, keyrði inn í Isberg
á miðju skipi bakborðsmegin. Isberg
fór á hliðina á nokkrum mínútum og
var sokkið eftir tæpa klukkustund.
Skipverjarnir fimm komust í björgunarbát
og var bjargað upp í þýska
skipið, sem var tiltölulega lítið laskað.
Skipverjar voru fluttir til Grimsby og
komu síðan til landsins í nótt.
Skipstjóri á Isberg var Jón Steinar
Árnason. Að hans sögn var mikil þoka
yfir þegar atburðurinn átti sér stað og
skyggni aðeins um 300 metrar. Áreksturinn
gerðist mjög snöggt, en skipstjóri
Isbergs hafði þó séð hvað verða
vildi. „Við vorum byrjaðir að beygja
og reyna að forða okkur og síðan
stoppuðum við og gáfum þokumerki.
Eg prófaði að kalla til þeirra á örbylgjustöð
en það gekk ekkert og næsta
skref var bara að forða sér því skipið
var oltið. Það lagðist á hliðina á 3 til 5
mínútum enda fór þýska skipið alla
leið inn í lest," sagði skipstjórinn, er
DV ræddi við hann við heimkomuna í
nótt.
Isberg er 360 tonna frystiskip sem
var keypt frá Noregi og kom fyrst til
landsins fyrir tíu dögum. Það var
byggt árið 1972 og því 11 ára gamalt.
Eigandi þess var OK h/f á Isafirði.
Þetta var fyrsta ferð þess frá Islandi.
Skipið var á leiðinni frá Grimsby til
Cuxhaven með um 200 tonn af frystum
fiski er áreksturinn varð. Tilla, sem er
um 1000 tonna skip, var hins vegar á
leiðinni frá Þýskalandi til Bretlands.
ÓEF