Þessa mynd tók Lárus Ægir Guðmundsson 1991. Félagarnir á myndinni voru þá að koma með Haukafell SF 40 til Skagastrandar eftir að Hólanes hf keypti bátinn frá Hornafirði. Báturinn fékk nafnið Gauti og einkennisstafina HU 59 og var gerður út á bolfisk og rækju til 1993. Þá var hann seldur Skagstrendingi hf sem seldi hann strax áfram til Hornafjarðar aftur. Þar var hann tekinn af skrá í apríl 1994 en settur aftur á skrá í apríl 1996 þegar hjónin Erna Sigurbjörnsdóttir og Þorvaldur Skaftason keyptu bátinn og komu með hann til Skagstrandar enn á ný. Þau hjón skírðu bátinn Húni II en það var hans upphaflega nafn þegar hann var smíðaður 1963 á Akureyri fyrir útgerðarfélagið Húni hf á Skagaströnd. Húni II er nú á Akureyri og þjónar þar sem útsýnis- og skólabátur. Það má því segja að báturinn sé búinn að fara marga hringi á líftíma sínum en líklega er hann nú að lokum kominn í lokahöfn. Sjómennirnir á myndinni eru, frá vinstri: Stefán Jósefsson skipstjóri og útgerðarmaður, Vilhjálmur Skaftason sjómaður, Sigurjón Guðbjartsson skipstjóri og útgerðarmaður og Gunnar Albertsson vélstjóri. (heimild: Sjósókn frá Skagaströnd & Vélbátaskrá 1908 - 2010 eftir Lárus Ægi Guðmundsson) |