Hofskirkja að lokinni endurbyggingu í desember 1989. Kirkjan er líklega elsta timburbygging í Húnavatnssýslum sem enn stendur. Hún var byggð 1870 en gerðar voru á henni lagfæringar um 1950 og síðan var hún endurbyggð 1989, eins og áður segir. Kirkjan var síðan friðuð 1. janúar 1990. Hofsprestakall var lagt niður og fært undir Höskuldsstaði árið 1907 en tilheyrir Skagastrandarprestakalli í dag eins og Höskuldsstaðakirkja. Í kirkjunni er ævagamall trénegldur predikunarstóll með myndum af guðspjallamönnunum. Altaristaflan, sem sýnir upprisuna, er líka gömul og er hún talin vera verk einhvers íslensks listamanns. Jón Árnason þjóðsagnasafnari fæddist á Hofi, sonur Árna Illugasonar prests þar. |