Eftir langa glímu við illvígan sjúkdóm lést Guðríður Líneik Daníelsdóttir á sjúkrahúsinu á Blönduósi að kvöldi föstudagsins 24. janúar síðast liðins.
Gauja var blátt áfram, glaðsinna og hreinskilin, ljúf við alla og gerði ekki mannamun. Vinir Gauju minnast hjálpsemi hennar og smitandi hressileika og þess hve góða nærveru hún hafði. Hún var virk í starfi kvenfélagsins og lét sig ekki vanta í félagsstarf eldri borgara þar sem hún hafði góð áhrif með dugnaði sínum og hressileika. Honum hélt hún óbuguð fram til síðasta dags.
Um leið og við þökkum Gauju fyrir samfylgdina er samúð okkar er með aðstandendum hennar sem búa að góðum minningum um ljúfa konu, sem nú er horfin okkur í ljóssins heim.
Útför hennar verður gerð frá Akraneskirkju klukkan 13:00 þriðjudaginn 4. febrúar næstkomandi.