Þessi mynd var tekin af Arnari HU 1 við hlið risa borgarísjaka á miðunum í apríl 2005. Það var Arnar Ólafur Viggósson sem tók myndina úr gúmmíbát Arnars HU 1. Myndin birtist í Morgunblaðinu 25. 4. 2005 með eftirfarandi texta: "Það fer ekki mikið fyrir frystitogaranum Arnari HU 1 þar sem hann skríður meðfram borgarísjaka af stærstu gerð. Ísjakinn var að lóna við Óðinsboða á Húnaflóa þegar Arnar var að koma inn til löndunar með aflaverðmæti upp á 115 m.kr. á laugardag. "Við settum út tuðruna að gamni og strákarnir fóru upp að jakanum. Þetta var eins og eyja að stærð - minnti mann á þegar maður sér Grímsey úr fjarska," sagði Árni Sigurðsson skipstjóri. "Það var svo mikil bráðnun á jakanum í sólinni að á nokkrum stöðum voru fossar fram af brúninni á honum. Það eru nokkrir stórir jakar þarna að þvælast en þessi var langstærstur."