Nemendur Höfðaskóla rannsaka vesturferðirnar

Fyrsta vika marsmánaðar var þemavika í Höfðaskóla á Skagaströnd. Þá unnu nemendur með margs konar fróðleik um vesturferðir Íslendinga fyrir og eftir aldamótin 1900. Afrakstur vinnunnar var síðan sýndur á stórri sýningu í íþróttahúsinu í lok vikunnar.

Nemendunum var skipt í sjö hópa þar sem hver hópur vann með ákveðið efni sem snertir vesturferðirnar. Hóparnir skoðuðu vesturferðirnar frá sjö sjónarhornum sem voru: ástæður ferðanna, ferðalagið sjálft, bústaðir fyrstu árin í nýja landinu, samskiptin við frumbyggjana/indíánana, þekktir staðir sem Íslendingar fluttust til, nokkrir þekktir Vestur-Íslendingar og einn hópurinn nýtti sér vitneskju sína til að búa til trúverðugar frásagnir af fjölskyldum sem fluttu til Vesturheims. 

Öllu þessu gerðu hóparnir síðan góð skil með plakötum, líkönum, myndum, ljóðum, söng og leikþáttum á opinni sýningu fyrir hádegi á föstudag. Foreldrar og aðrir velunnarar skólans fjölmenntu á sýninguna og höfðu margir á orði hve vel heppnuð og yfirgripsmikil hún væri.

Þegar nemendur voru spurðir hvað hefði komið þeim mest á óvart sögðu margir að það væri fjöldi þeirra sem fór úr núverandi skólahverfi Höfðaskóla vestur um haf. 220 manns fluttu vestur á tímabilinu 1874-1913 úr Vindhælishreppi hinum forna þar sem í dag búa um 650 manns. Yfirgnæfandi meirihluti flutti á árunum 1874-1900. 

Annað sem nemendurnir höfðu ekki gert sér grein fyrir var hve miklir erfiðleikar biðu landnemanna í nýja landinu og hve mikil samskiptin við indíána hefðu verið.

Textinn í fréttinni er úr Morgunblaðinu 8. mars 2011 og er eftir Ólaf Bernódusson, fréttaritara blaðsins á Skagaströnd.

Meðfylgjandi myndir tók Signý Ósk Richter sérlegur hirðljósmyndari fréttasíðunnar skagastrond.is.