Norðvestlendingur ársins 2007

Börnin á Skagaströnd

Feykir í samstarfi við Húnahornið og Skagafjörð.com stóð á dögunum fyrir kosningum um það hvaða einstaklingur eða hópur væri að þeirra mati Norðvestlendingur ársins 2007.

Þegar búið var að taka saman tölvupóstkosningu og netkosningu á miðlunum báðum stóðu börnin á Skagaströnd uppi sem sigurvegarar. Í öðru sæti varð Þórarinn Eymundsson hestamaður í Skagafirði og þriðji varð Björn Þór Kristjánsson, ferðaþjónustuaðili í Austur Húnavatnssýslu.

Feyki var boðið í félagsheimilið á Skagaströnd síðast liðinn föstudag en þar var sveitarstjórinn að afhenda nemendum 6. bekkjar greiðslu fyrir vinaarmbönd sem börnin höfðu hnýtt handa bæjarbúum. Launin, 25 þúsund krónur, gengu til Rauða kross Íslands og munu verða nýtt í barnahjálp. Því næst hélt skólastjórinn yfir þeim tölu og sagði börnunum litla sögu frá því er hún þar sem hún var stödd í kennslustund í fjarnámi sínu á Akureyri, fékk fréttirnar af því að börnin hennar á Skagaströnd hefðu verið tilnefnd sem Norðvestlendingar ársins. Sagði Hildur að bara það að vera útnefndur væri mikill heiður fyrir þau og hún væri svo sannarlega stolt af þeim.

Þakið ætlaði síðan af húsinu er börnunum var tilkynnt að þau hefðu með þeirra orðalagi “rústað” keppninni og væru Norðvestlendingar ársins 2007.

 

Flottir krakkar

Hildur Ingólfsdóttir, skólastjóri Höfðaskóla var að vonum stolt af sínum börnum og sagði að það hefði komið sér þægilega á óvart að einhver annar en heimamenn hefði tekið eftir afrekum krakkanna. –Þau eru mjög dugleg þessi hópur og samhent. Það er líka gaman að segja frá því

að þegar það er eitthvað sem þeim mislíkar hér í skólanum eru þau dugleg að safna undirskriftum til þess að fá því breytt. Við reynum þá að hlusta á þau og koma til móts við þau og þannig höfum við náð að vinna vel saman. Eins lögðu krakkarnir sem tóku þátt í Reyklaus í fyrra, mikið á sig og var verkefni þeirra stórglæsilegt og engin heppni að þau unnu þá keppni heldur var það  verð skuldað, segir stoltur skólastjóri. Í sama streng tekur sveitarstjórinn sem segir að börnin séu dugleg að koma til sín og ræða málin og benda á hvað þeim þyki að betur mætti fara. Það er ekki af ástæðulausu sem börnin á Skagaströnd voru tilnefnd sem Norðvestlendingar ársins enda komust þau ósjaldan í fréttirnar síðasta árið fyrir afrek sín. Afrek sem verðskuldað veittu þeim titilinn Norðvestlendingur ársins.

 

Afrekaskráin

Fyrsta afrek þeirra sem til er tekið, var þegar hópur úr skólanum tók þátt í Skólahreysti sem er keppni milli grunnskóla landsins og fer þannig fram að 4 keppendur koma frá hverjum skóla og etja kappi í 5 greinum sem tengjast þoli, styrk og snerpu. Hér má sjá hluta úr frétt frá því snemma á árinu – Í undankeppninni s.l. fimmtudag tóku alls 9 skólar víðsvegar að frá Norðurlandi þátt.  Keppnin var æsispennandi allan tímann, ekki bara inni á vellinum heldur líka í áhorfendastúkunni

og létu nemendur Höfðaskóla ekki sitt eftir liggja þar, frekar en í keppninni sjálfri. Keppendur Höfðaskóla þau Ingimar Vignisson, Patrik Snær Bjarnason, Silfá Sjöfn Árnadóttir og Sólrún

Ágústa stóðu sig mjög vel og hafnaði liðið í 3. sæti, á eftir Borgarhólsskóla frá Húsavík sem varð í 2. sæti og Grunnskóla Siglufjarðar sem sigraði þessa umferð. Glæsilegur árangur hjá keppendum Höfðaskóla og eiga þau og þjálfari þeirra, Helena Bjarndís Bjarnadóttir íþróttakennari hrós skilið. Liðið lagði mikið á sig og æfði vel fyrir keppnina, fór m.a. í æfingaferð í Voga á Vatnsleysuströnd þar sem finna má útihreystibraut sem hentaði vel til æfinga fyrir Skólahreystina.

Annað afrek krakkanna var þegar þau tóku þátt í keppninni Reyklaus sem er Evrópusamkeppni meðal reyklausra 7. – 8. bekkja. Að launum hlutu þau Danmerkurferð fyrir bekkinn. Sýnum brot úr gamalli frétt.

-Til að eiga möguleika á að vinna til fyrstu verðlauna þurftu bekkirnir að senda inn áhugavert efni tengt tóbaksvörnum. Nánari útfærsla var ekki tilgreind til að þrengja ekki hugmyndir að verkefnum. Í ár, eins og áður, bárust mjög mörg vel unnin verkefni og var þriggja manna dómnefnd vandi á höndum að velja sigurvegara. Alls bárust 90 lokaverkefni og voru mörg frábærlega unnin, bæði hvað varðar hugmyndir og útfærslu. Verkefni 8. bekkjar Höfðaskóla á Skagaströnd var mjög viðamikið og er greinilegtað bæði var lagður mikill metnaður og heilmikið starf í alla þætti þess. Gaman er að er geta þess að Höfðaskóli hefur áður hlotið fyrstu verðlaun í

þessari samkeppni, en það var fyrir 6 árum síðan.

 Eitthvað þótti krökkunum á Skagaströnd lítið til sundlaugar staðarins koma og tóku nokkrir krakkar sig til og söfnuðu undirskriftum þar sem óskað var eftir því að byggð yrði ný sundlaug í bænum. Gengu þau á milli húsa, kynntu sinn málstað og söfnuðu undirskriftum sem síðan voru

afhentar sveitarstjórn. Sem í framhaldinu samþykkt að athuga kostnað við að byggja nýja  sundlaug. Á haustdögum komu nemendur í 6. bekk Höfðaskóla til fundar við sveitarstjórann.

Erindi krakkanna var það að þau ætluðu að hnýta vinaarmbönd handa öllum bæjarbúum. Báðu þau sveitarstjóra um að kaupa af sér armböndin en ágóðinn átti að renna til Rauða kross Íslands.

Síðast en ekki síst björguðu þau horaða jólatrénu. Forsaga þess máls var að þegar kveikt var á jólatré bæjarbúa í miðbænum kom í ljós að tréð sem keypt hafði verið þetta árið þótti ákaflega rýrt. Létu bæjarbúar óánægju sína í ljós og var ákveðið að skipta því út fyrir fallegra tré. Ekki fannst börnunum þetta vera í anda jólanna og stóðu fyrir undirskriftasöfnun trénu til bjargar auk þess að standa vörð um tréð. Það varð því úr að nýja “flotta” tréð fór upp í miðbænum en hið rýra var sett upp við kirkjuna.

 

Heimild: Feykir

Myndir:ÁGI