Nýr matslisti Gerd Strand til að meta færni sjö ára skólanemenda er nú komin út á vegum fræðsluskrifstofu Austur Húnavatnssýslu. Hefur verið unnið að gerð listans í þrjú ár af sérkennurum í húnvetnskum skólum ásamt fræðslustjóra A-Hún. Listinn er byggður upp af safni spurninga úr helstu færni- og getuþáttum sem hafa áhrif á nám og líðan nemenda í grunnskólum.
Það eru sérkennararnir Gréta Björnsdóttir, Guðbjörg I. Guðmundsdóttir og Helga Ó. Aradóttir sem unnið hafa listann ásamt þeim Sigríði B. Aadnegard leik- og grunnskólakennara og Guðjóni Ólafssyni sérkennslufræðingi og fræðslustjóra sem stýrði verkinu. Að sögn höfundanna er hér komið tæki sem stuðlar að enn faglegri og markvissari vinnubrögðum í grunnskólum. Matslistinn veitir foreldrum og kennurum mikilvægar upplýsingar um stöðu nemandans í ákveðnum færni – og getuþáttum. Þær upplýsingar auðvelda síðan fagfólki skólanna að koma til móts við þarfir hvers og eins nemanda á réttum forsendum.
Matslistinn byggir á níu spurningaflokkum sem allir hafa mikla þýðingu í sambandi við nám og skólagöngu sjö ára barna. Spurningaflokkarnir varða: málþroska, eftirtekt/einbeitingu, fljótfærni/hvatvísi, virkni, samskipti, fín-og grófhreyfingar, sértæka erfiðleika, tilfinningar og líðan og almennan skilning og þekkingu. Allt eru þetta flokkar sem mikilvægt er fyrir kennara og foreldra að hafa sem réttasta mynd af til að nám og líðan viðkomandi nemanda verði sem best.
Þróunarsjóður grunnskóla veitti tvisvar styrki til að matslistinn gæti orðið að veruleika auk þess sem húnvetnsku skólarnir veittu liðsinni sitt með vinnuframlagi kennara sinna. Listinn hefur verið þaulprófaður og hefur hann staðist allar prófanir og því má fullyrða að hann mæli rétt og vel það sem honum er ætlað og gefi því áreiðanlegar upplýsingar. Einnig hafa sérfræðingar eins og sálfræðingar, talmeinafræðingur, iðjuþjálfi og aðrir á hinum ýmsu sviðum lagt höfundunum lið.
Þessi nýji matslisti Gerd Strand hefur verið kynntur á nokkrum stöðum fyrir fagfólki og er það samdóma álit þess fólks að hér sé um að ræða kærkomið hjálpartæki fyrir grunnskólana. Þannig hefur þegar verið ákveðið að taka listann í notkun í grunnskólum Hafnafjarðar, Dalvíkur og Ólafsfjarðar strax og hann kæmi út í endanlegri útgáfu.
Matslista Gerd Strand fyrir sjö ára nemendur í grunnskóla geta áhugasamir nálgast hjá skrifstofu Héraðsnefndar A-Hún á Blönduósi.